Beint í efni

Þroski túngrasanna sumarið 2008

30.05.2008

Í sumar munu Bændasamtökin standa fyrir grassýnatöku á nokkrum stöðum á landinu eins og undanfarin ár. Tilgangurinn er að auðvelda bændum að fylgjast með grasþroska og fóðurgildi og ákvarða þannig réttan sláttutíma. Fyrstu sýnin verða tekin mánudaginn 9. júní og síðan verða tekin sýni með reglulegu millibili.

Upplýsingar um þroska túngrasanna

Niðurstöður verða birtar um leið og þær liggja fyrir hér á vefnum. Þó svo að sýni verði ekki tekin nema á sjö stöðum á landinu þá ættu bændur á svipuðum slóðum, eða þar sem grasspretta er að öllu jöfnu sambærileg, að geta stuðst við niðurstöðurnar.

Rauðu punktarnir á myndinni hér undir sýna þá staði sem ráðunautar munu vikulega í sumar taka grassýni til efnagreiningar og mæla uppskerumagn. Svörtu punktarnir á myndinni sýna 34 veðurathugunarstöðvar á landinu. Tölurnar í svigunum sýna frávik (fjöldi daga) hverrar stöðvar frá meðaltali (28.maí) allra stöðvanna á því hvenær tún verða algræn. Þetta eru meðaltöl yfir langt tímabil. Þó aðeins muni nokkrum dögum á meðaltali tveggja staða getur munurinn sum ár verið mun meiri. Ef t.d. jörð kemur klakalaus undan vetri á Suðurlandi og suðlægar áttir eru ríkjandi um vorið er munur milli staða lítill. Munurinn er hins vegar meiri eftir fremur kalda vetur í árum þegar norðlægar áttir ríkja að vori (Guðni Þorvaldsson, 1996).


Heimild:

Guðni Þorvaldsson, 1996.Áhrif veðurþátta á byrjun gróanda og grænku túna á úthaga. Búvísindi 10: 165-176.