
Þróa ís fyrir sjúklinga
20.02.2017
Bandaríska stórfyrirtækið DuPont, sem er sérhæft á sviði efnavöru, hefur nú þróað sérstakan ís fyrir lystarlausa sjúklinga en DuPont hefur unnið að verkefninu í samvinnu við vísindafólk við háskólann í Álaborg í Danmörku. Ísgerð þessi, sem minnir um margt á ís sem við sögðum frá í frétt á síðasta ári sem hét „Ís gegn ógleði“, er sérstaklega þróaður í þeim tilgangi að koma mikilvægum næringarefnum í þá sjúklinga sem eiga erfitt með að borða.
Talið er að allt að 40% sjúklinga sem dvelja á sjúkrahúsum fái mögulega minna af næringu en eðlilegt er vegna lystarleysi en oftast sé þó hægt að gefa þeim ís að borða. Fyrir vikið hefur nú verið þróaður þessi sérstaki ís sem inniheldur mun hærra hlutfall næringarefna, vítamína og steinefna en hefðbundinn ís. Ís þessi er nú í prófun á háskólasjúkrahúsinu í Álaborg og ef vel gengur með ísinn geta ísframleiðendur um allan heim brátt keypt þessi sérstaklega framleiddu stoð- og bragðefni frá DuPont og hafði þannig framleiðslu á „sjúkrahúsaís“/SS.