Þrjár vikur í árshátíðina!
12.03.2016
Minnum á að árshátíð Landssambands kúabænda verður haldin eftir þrjár vikur eða laugardaginn 2. apríl í Súlnasal Hótel Sögu og verður hún einstaklega glæsileg í tilefni 30 ára afmælis samtakanna. Veislustjóri þessarar stórhátíðar verður enginn annar en sprelligosinn Magnús Sigurðsson frá Hnjúki. Hann mun einnig njóta liðsinnis þeirra Guðna Ágústssonar fv. landbúnaðarráðherra m.m. og uppistandarans Ara Eldjárn!
En þar sem LK á stórafmæli þá verður bætt um betur og boðið upp á bæði dans- og söngatriði auk skemmtilegs happdrættis. Árshátíðin hefst með fordrykk kl. 19 og stendur fram á rauða nótt en það verða Trukkarnir úr Austur-Húnavatnssýslu sem sjá um að halda uppi fjörinu!
Við hvetum alla, bæði kúabændur, ráðunauta, dýralækna, þjónustuaðila og aðra þá sem tengjast nautgriparækt með einum eða öðrum hætti að fjölmenna á afmælisárshátíðina. Verð aðeins 7.900 kr en miðapantanir eru gerðar í síma 460-4477 og herbergjapantanir á Hótel Sögu í síma 525-9900/SS.