Beint í efni

Þresking hafin í Danmörku

18.07.2011

Það er ekki bara íslensk hefð að keppast við að vera fyrstur að hefja slátt og ná góðri uppskeru í hús, þetta þykir ekki síður mikilvægt í í öðrum löndum. Það sem meira er, í Danmörku er þetta hreinlega keppnisgrein og eru veitt verðlaun til þeirra sem eru fyrstir að þreskja og ná amk. meðaluppskeru og þurrefni! Í ár, rétt eins og undanfarin ár, var vetrarbyggið fyrst tilbúið og að þessu sinni var það hann Steen Bjerggaard Hansen frá bænum Agedrup á Fjóni sem náði titlinum í síðustu viku. Alls þreskti hann 8,5 hektara með yrkinu Marinka og var þurrefnið 82% og uppskeran rétt um 7 tonn/hektaranum eða í meðallagi.

  

Verðlaunin eru veitt af „Bændablaðinu“ í Danmörku (LandbrugsAvisen) og þurfa bændur að senda inn myndir af þreskingu til þess að hreppa titilinn, ásamt nauðsynlegum uppskerutölum svo unnt sé að meta að ekki sé verið að uppskera óþroskaða akra til þess eins og vinna!

 

Þar sem keppt er í mörgum flokkum korntegunda, er „keppninni „ hvergi nærri lokið og aðrir danskir bændur geta því leikandi náð sér í titil í ár þó svo verðlaunin fyrir vetrarbyggið séu farin. Þá er „keppni lokið“ í grasflokkunum. Hægt er að fræðast nánar um þessa skemmtilegu keppni með því að smella hér.

 

Á myndinni sem fylgir þessari frétt má sjá nágranna hans Steen, Ole Walther, að þreskja fyrir hann. Það var kona Steen, Natasza Bjerggaard Hansen, sem tók myndina/SS.