Beint í efni

Þjóðverjar auka neyslu á sérmerktri mjólk

27.11.2017

Í Þýskalandi hefur neysla á sérmerktri mjólk, svo sem lífrænt vottaðri eða svokallaðri grasmjólk þ.e. mjólk frá kúm sem fara á beit osfrv., aukist verulega. Fyrstu átta mánuði ársins hefur grasmjólk selst í 50 milljónum lítra sem er 34% aukning frá sama tímabili fyrir ári síðan. Þá hefur á sama tíma orðið 8,6% aukning í sölu á lífrænt vottaðri mjólk og nam átta mánaða salan 183 milljónum lítra.

Samtals hafa þessir ofannefndu vöruflokkar drykkjarmjólkur aukist um 27 milljónir lítra fyrstu átta mánuði ársins sem er auðvitað afar fínt en ef horft er til sölu á hefðbundinni drykkjarmjólk þá nam hún 2,3 milljörðum lítra fyrstu átta mánuði ársins í Þýskalandi og dróst salan saman um 5,3% eða sem nemur 116 milljón lítrum. Í heildina er því í Þýskalandi, líkt og í mörgum öðrum Evrópulöndum, samdráttur í heildarsölu á drykkjarmjólk en vera má að leiðin til þess að snúa þessari þróun við sé einmitt aukin áhersla á sérmerkingu drykkjarmjólkur/SS.