Beint í efni

Thise með góða veltuaukningu

13.04.2018

Danska afurðafélaginu Thise Mejeri, sem íslenskum kúabændum er að góðu kunnugt enda framleiðir það skyr með sérleyfi frá Íslandi, gekk afar vel á síðasta ári. Alls nam velta þess 16,3 milljörðum íslenskra króna og jókst velta þess frá fyrra ári um 408 milljónir króna. Þá nam hagnaður félagsins 402 milljónum króna sem var í samræmi við væntingar enda er hagnaðarhlutfallinu stýrt á hverjum tíma og fyrst og fremst miðað við að greiða bændum sem hæst afurðastöðvaverð.

Tekjur Thise Mejeri námu 62,4 íslenskum krónum af hverju innvegnu kílói mjólkur sem er aukning um 1,8 krónur frá árinu 2016. Segir í fréttatilkynningu félagsins að niðurstaða rekstursins árið 2017 sé afar ásættanleg og skýrist gott gengi af hagstæðum skilyrðum á bæði markaðinum í Danmörku en einnig þeim útflutningsmörkuðum sem félagið starfar á. Þá sé vinnsla félagsins hagkvæm auk þess sem sérfræðingar Thise Mejeri hafi unnið hörðum höndum að því að auka verðmæti afurðanna með nýjungum og bættri vinnslu/SS.