Beint í efni

Thise gerir það gott

12.04.2016

Thise mejeri, samstarfsfélag MS og framleiðandi á skyri með íslensku sérleyfi frá MS, er lítið samvinnufélag danskra kúabænda og hefur byggt upp mikla sérstöðu á undanförnum árum m.a. með framleiðslu á skyri. Félagið hefur nú birt ársuppgjör sitt og gekk reksturinn framar vonum. Alls jókst velta ársins 1 milljarð íslenskra króna á árinu og fór úr 16,2 milljörðum í 17,2 milljarða og skilaði reksturinn hagnaði sem nam 554 milljónum íslenskra króna eða sem nam 3,2% af heildarveltu. Þetta er afar góður árangur og í góðu samræmi við rekstrarniðurstöður margra helstu afurðafélaga í norðurhluta Evrópu.

 

Thise er afurðafélag sem vinnur eingöngu með lífrænt vottaða mjólk og er með um 80 félagsmenn sem framleiða rúmlega 100 milljónir lítra af lífrænni mjólk á hverju ári. Thise hefur byggt upp mikla sérstöðu á hinum lífræna markaði, ekki einungis í Danmörku heldur einnig á útflutningsmörkuðum. Þannig hefur félagið m.a. tryggt sér góðan markað í Kína og eru vörur Thise eftirsóttar þar. Fyrir vikið hefur Thise getað greitt all hátt afurðastöðvaverð en það var að jafnaði 71,0 íkr/kílóið árið 2015 og er það töluvert hærra en aðrar danskar afurðastöðvar greiddu að jafnaði fyrir lífrænt vottaða mjólk það ár/SS.