Beint í efni

Þing International Dairy Federation í Shanghai

01.12.2006

Tveir fulltrúar frá Íslandi, Magnús Ólafsson, forstjóri og Dr. Þorsteinn Karlsson, framkvæmdastjóri tæknisviðs, frá Osta- og smjörsölunni sóttu IDF þingið, sem haldið var í Shanghai í Kína 20. – 23. október s.l. Á þinginu gerðist S-Kórea aðili að samtökunum og standa aðildarríki innan IDF nú fyrir um 75% af mjólkurframleiðslunni í heiminum.
Eftirspurn eftir mjólkurafurðum í heiminum vex um 2,8% á ári um þessar mundir samkvæmt upplýsingum frá fulltrúa Rabobank. Eftirspurn eftir mjókurafurðum vex hraðast í Kína og búist er við að hún tvöfaldist þar í landi fram til ársins 2010 frá því sem nú er. Mjólkurframleiðslan í heiminum vex hins vegar um 0,8% þannig að mjólkuriðnaðurinn stendur frammi fyrir verulegri og óvenjulegri áskorun um þessar mundir. Búist er við áframhaldandi háu heimsmarkaðsverði á mjólkurafurðum á næstu árum.

Mjólkurframleiðslan í helstu innflutningslöndum á mjólkurafurðum vex ekki í takt við eftirspurnina. Ennfremur ríkir talsverð óvissu um framleiðslu mjólkur í Evrópu vegna lækkandi verðs á hrámjólk og óvissu um hvort kvótakerfið verði áfram við lýði. Ýmislegt bendir til þess að það verði afnumið árið 2015.
Áhrifa Evrópu gætir nú æ minna á heimsmarkaði en framleiðslan nam 31% af heimsframleiðslunni árið 1995 en búist er við að hún verði um 25% árið 2015.
Ástralir og Nýsjálendingar eru ekki færir um að auka framleiðslu sína að neinu ráði og aukin framleiðslugeta bandarískra bænda er hlutfallslega minni en nemur eftirspurn á heimsvísu.
Búist er við að S-Ameríka verði sjálfbjarga hvað varðar framboð á mjólkurafurðum innan fárra ára með aðstoð erlendra stórfyrirtækja og sömu sögu er að segja um Pakistan og Indland.