
Þekkingarsköpun í landbúnaði
01.06.2019
,,Þú veist að Ketó er alls ekki sniðugt fyrir mjólkandi konur”. Hrökk upp úr kunningja sem ég hafði greinilega, af saklausri forvitni, spurt of mikið út í tiltekið mataræði. Mig langaði að vita meira um hvað þetta æði snérist þar sem fjöldi manns hefur stokkið á þennan megrunarkúr eða lífsstíl. Í mjög stuttu máli snýst þetta um að haga mataræðinu þannig líkaminn skipti úr því að nota kolvetni sem helsta orkugjafa yfir í það að nota fitu, en þar koma fituríkar mjólkurvörur eins og ostar, rjómi og smjör sterk inn. Þannig má brenna af sér aukakílóum með því að koma sér í svokallað ketó ásand (e. ketosis) – eitthvað sem við kúabændur þekkjum líklega betur sem súrdoða. Ég átti því erfitt með að halda aftur af glottinu þegar mér, „mjólkandi konunni“, var ráðlagt að sleppa því að koma mér í súrdoða!
Smjör, ost og rjóma takk
Hvað er ég að þvæla um Ketó hér? Jú, tískustraumar í mataræði geta haft gríðarleg áhrif á val neytenda og þar með eftirspurn eftir vörum bænda. Það er því stöðug áskorun fyrir bændur og starfsfólk afurðastöðva að vera vel vakandi og bregðast við nýjustu straumum og stefnum. Það er í raun örstutt síðan fita þótti af hinu illa og fituhluti mjólkur seldist verr en próteinhlutinn. Fyrir örfáum árum hefði fólk ekki getað ímyndað sér núverandi eftirspurn og sölu á smjöri, rjóma eða öðrum feitum mjólkurvörum. Nú er hins vegar eins og flestir lesendur vita annað uppi á teningnum og efnahallinn þannig að sala á fituhluta er langt um meiri en próteinhluta.
Hvað breyttist? Vissulega komu fram vinsælir kúrar, og nýir munu koma og fara, en stóra breytingin var sú að með rannsóknum var m.a. sýnt fram á að fita væri ekki jafn slæm fyrir okkur og áður var haldið. Rannsóknir kollvörpuðu sýn okkar og skilningi á heilsusamlegu mataræði.
Þróun og rannsóknir eru undirstaða allra atvinnugreina, framþróunar og þess að atvinnugreinar þrífist og dafni. Bein tengsl eru milli rannsóknarstarfs og aukinnar framleiðni. Landbúnaðurinn er þar að sjálfsögðu ekki undanskilinn.
Flest verkefni sem LK kemur að eiga það sameiginlegt að á einhverjum tímapunkti kemur til umræðu hve mikil þörf sé á auknum rannsóknum og eða þekkingarmiðlun.
Ketó er tískubylgja (vissulega lífsstíll hjá þeim sem taka þetta alla leið) en neysla á fituhluta mjólkur er kannski ekki að breytast stórlega í bráð en þrátt fyrir aukna eftirspurn á fitu, hefur þó fituprósenta innveginnar mjólkur yfir landið farið lækkandi á þessu ári! Slæmt árferði í fyrra er vissulega einhver skýring á þessu en við höfum upplifað það áður. Á sínum tíma var farið í fræðsluátak fyrir bændur hvernig mætti auka fitu í mjólk og brugðust bændur vel við. Nú kemur enn og aftur upp umræðan um rannsóknir og fræðslu. Hafa menn lært eitthvað af reynslu síðustu ára og er kannski eitthvað nýtt komið fram í þessum málum? Geta bændur gert eitthvað betur í eigin fóðuröflun til að bæta fituprósentuna og hvernig má hækka fitu á sem hagkvæmastan hátt.? Þekking er vissulega til en hana þarf stöðugt að uppfæra og miðla áfram. Eru komin ný tækifæri fyrir bændur?
Nautakjöt, loftslagsmál og allt hitt
Í stefnumótunarvinnu LK vegna nautakjötsframleiðslu, kom síendurtekið upp umræða um skort á rannsóknum við íslenskar aðstæður og einfaldlega aukna fræðslu til bænda. Á Stóra-Ármóti í Flóahreppi vex nú upp framtíðin í holdanautarækt á Íslandi, afkvæmi einna allra bestu Angus nauta í heiminum. Innflutningur þessa nýja erfðaefnis á að styrkja nautakjötsframleiðslu landsins og bæta stöðu okkar gagnvart auknum innflutningi. Virkilega flott og spennandi starf þar.
Í kringum þetta starf, innkomu nýs erfðaefnis, hefur líkt og í öðrum verkefnum komið upp umræðan um hve mikil þörf sé bæði á auknu fé til rannsókna og svo fræðslu til bænda t.d. varðandi beiðslisgreiningu holdakúa og sæðingar þeirra. Gríðarleg sóknarfæri eru í nautakjötsframleiðslu með bættri fóðrun og aðbúnaði, en auk þess þurfa holdanautabændur að vera duglegir að nýta sæðingar til að ná sem mestum framförum í ræktuninni.
Hamfarahlýnun jarðar er mest aðkallandi verkefni nútímans og þá þarf hver og einn að gera hvað hann getur til að leggja sitt á vogarskálarnar. Rannsóknum ber ekki öllum saman um hlutdeild nautgriparæktar í hlýnun jarðar og stórkostleg þörf er á auknum rannsóknum og staðfæringu yfir á íslenskar aðstæður í loftslagsmálum.
Allir vilja leggja sitt af mörkum en það er aðkallandi að þekking sé til staðar svo að hægt sé að stíga rétt skref og bregðast við vandanum.
Hluti af því að minnka kolefnisspor landbúnaðarins getur m.a. falist í að auka og bæta innlenda fóðuröflun og gríðarleg þörf er komin fyrir auknar rannsóknir í jarðrækt og fóðurverkun. Upptalning verkefna gæti orðið ansi löng lesning, en það er nánast sama hvaða málefni landbúnaðarins eru til umræðu, alltaf kemur til tals hve mikil þörf er fyrir auknar rannsóknir og þekkingarmiðlun.
Auka þarf fjárfestingu í rannsókna- og þróunarverkefnum í landbúnaði og til að auka gæði framleiðslu, hagkvæmni og samkeppnishæfni þarf landbúnaðurinn að geta nýtt niðurstöður rannsókna til hagsbóta fyrir innlenda matvælaframleiðslu.
Til þess að rannsóknastarf, menntun og fræðsla í greininni megi dafna þarf að stórauka fjárframlög. Ber þá helst að auka framlög til Landbúnaðarháskóla Íslands og hver sem framtíð Framleiðnisjóðs landbúnaðarins kann að verða þarf að tryggja að nægt fé verði eyrnamerkt rannsóknum í þágu nautgriparæktar á Íslandi. Einnig þarf að vekja athygli fólks úr öðrum atvinnugreinum og námsfólks annarra háskóla en Landbúnaðarháskóla Íslands á rannsóknamöguleikum og tækifærum til þess að starfa í landbúnaði. Áhugi fólks er mikill á landbúnaði, en oft vantar einfaldlega að kynna fyrir því möguleikana.
Þrátt fyrir að fjöldi aðkallandi verkefna liggi fyrir, hefur fólki fækkað sem menntar sig á sviði landbúnaðar og meistara- og doktorsnemum í greininni hefur stórlega fækkað. Á sama tíma hefur fastráðnum vísindamönnum einnig fækkað mjög. Þetta er afleiðing þess að fjármagn er af skornum skammti. Þessari þróun þarf að snúa við. Á Íslandi er fjöldi áhugasamra og hæfra einstaklinga til að sinna rannsóknastarfi í landbúnaði. Það er okkur lífsnauðsynlegt að nýta krafta þeirra sem best – halda í og fjölga fólki í greininni.
Þekkingarsköpun er dýrmæt auðlind sem stuðlar að hagvexti.
Ritað á Egilsstöðum í lok maí 2019
Herdís Magna Gunnarsdóttir
Varaformaður LK