Beint í efni

Tekjur af skyrútflutningi stefna í hálfan milljarð!

04.06.2013

Á síðustu árum hefur orðið sprenging í sölu á skyri á Norðurlöndum og salan meira en tífaldast í verðmætum og magni á 4 -5 árum. Útlit er fyrir að tekjur MS af beinni sölu og sérleyfum nemi um hálfum milljarði króna á þessu ári. Á Norðurlöndunum, að Finnlandi undanskildu, er skyrið framleitt samkvæmt sérleyfi frá MS og byggt á íslenskum aðferðum og þekkingu.

 

Mörg lönd til viðbótar hafa óskað eftir samningi um leyfi til að framleiða skyr og má nefna Bretland, Þýskaland, Japan og Bandaríkin en þar er unnið að stórum samningi um sérleyfi.

 

Eins og áður segir er skyr flutt beint til Finnlands en tollheimildin sem ekki fæst aukin, miðast við 390 tonn sem er langt undir eftirspurn. Áætlanir gera ráð fyrir 650 tonna sölu á þessu ári og er því reiknað með að framleiða um 160 tonn í Danmörku til að anna eftirspurn. Þar í landi hefur skyr verið framleitt samkvæmt sérleyfi í sex ár og hefur salan þar verði afar góð undanfarið en alls nemur söluaukningin 130% fyrstu fjóra mánuði þessa árs.

 

Norðmenn borða um helming þess skyrs sem selt er á Norðurlöndunum og þar er markaðs- og kyningarherferð leyfishafa margverðlaunuð af samtökum kaupmanna, viðskiptatímaritum og fleirum. Um hálfur milljarður hefur verið settur í auglýsingar og kynningstarf af ýmsum toga.

 

Svíþjóð er yngst á þessum markaði, en þar eins og annars staðar hefur skyrið átt velgengni að fagna.

Áætlanir gera ráð fyrir að seld verði hátt í fimm þúsund tonn af skyri á Norðurlöndunum í ár sem er 2,5 falt meiri neysla á skyri en er hér á landi. Enn sem komið er, er þó neysla á hvern íbúa miklu meiri hér á landi en annars staðar. Áætlanir gera ráð fyrir að þessi markaður gæti farið í tíu þúsund tonn eftir fáein ár. Gangi þau áform eftir mun heildsöluverðmæti vörunnar þá verða um 9-10 milljarðar á ársgrundvelli/SS-Mjólkurpósturinn.