Beint í efni

Tekið verði á skuldavanda bænda á sama hátt og hjá einstaklingum og heimilum

17.09.2010

Nauðsynlegt er að staða bænda sem tóku gengisbundin lán sé skýrð hið fyrsta. Eðlilegt sé að skuldamál bænda séu meðhöndluð á sama hátt og skuldamál einstaklinga. Þetta er mat Bændasamtaka Íslands í kjölfar dóms Hæstaréttar frá því í gær þar sem kveðið er á um vaxtakjör á ólöglegum gengisbundnum lánum.

Jóhanna Lind Elíasdóttir, rekstrarráðunautur hjá Bændasamtökunum, segir það sitt mat að eðlilegt sé að skuldamál bænda, sem og annarra einyrkja, verði meðhöndluð með sambærilegum hætti og skuldamál einstaklinga og heimila. „Í tilfellum bænda er atvinnurekstur þeirra þannig samtvinnaður við heimilisrekstur að annað væri í mínum huga óhugsandi. Á bak við lán bænda eru veð í bújörðum þeirra og heimilum. Þetta á bæði við um bændur sem eru með rekstur á eigin kennitölu og eins við þá bændur sem stofnað hafa einkahlutafélög utan um reksturinn.“ Jóhanna segir það jafnframt sitt mat að dómurinn frá því í gær hafi því miður ekki svarað nógu mörgum spurningum. „Ennþá er verulega á reiki til hvaða lána dómurinn nær og því er útilokað að segja hvað hann muni þýða fyrir bændur að svo komnu máli.“

Engin skýr svör
Í tilkynningu frá efnahags- og viðskiptaráðuneytinu í kjölfar dómsins í gær kemur fram að út frá sanngirnissjónarmiðum sé talin þörf á að skýra lögmæti gengisbundinna lána til fyrirtækja en rík neytendasjónarmið hnígi að því að einstaklingar fái meiri vernd en fyrirtæki. Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, var í Kastljósi í gær spurður um hvort ekki væri mótsögn í því að bændur og lítil fyrirtæki væru sett í sama flokk og stórfyrirtæki. Árni Páll svaraði ekki beint til um hvaða afstaða yrði tekin varðandi skuldamál bænda en sagði að nauðsynlegt væri að taka á málum í hverju tilviki fyrir sig. Gera yrði kröfu á bankastofnanir um að þau gangi til samstarfs við ríkisvaldið um úrlausn skuldavandans. Í ljósi orða ráðherrans og yfirlýsingar ráðuneytisins frá því í gær er á engan hátt ljóst hvernig skuldamál bænda verða meðhöndluð.

Taka verður á málum af sanngirni
Eiríkur Blöndal, framkvæmdastjóri Bændasamtakanna, segir augljóst að lánamál bænda hljóti í öllum meginatriðum að falla í flokk lána til handa einstaklingum. „Þarna er um að ræða rekstur fyrirtækja og heimila sem er óaðskiljanlegur. Því leggja Bændasamtökin þunga áherslu á að stjórnvöld tryggi eðlilega málsmeðferð fyrir bændur í kjölfar þessa dóms og að þeir eigi kost á að fá meðhöndlun sem einstaklingar og heimili. Bændasamtökin hafa ítrekað bent á nauðsyn þess að tekið verði á þessum málum af sanngirni og festu fyrir þau heimili sem um ræðir og einnig til að tryggja áfram fæðuöryggi og byggð í landinu.“