Beint í efni

Tap hjá Dairy Crest

12.06.2012

Eins og fram hefur komið hér á naut.is gengur hreint ekki nógu vel hjá breskum kúabændum um þessar mundir og er það ein af skýringum þess að Arla og Milk Link eru að sameinast. Nú hefur næst stærsta afurðafélagið á Stóra-Bretlandi, Dairy Crest, tilkynnt að rekstur ársins stefni í tap og við því verði að bregðast strax. Í alvarlegri skoðun er að loka tveimur óhagkvæmum afurðastöðvum sem til þessa hafa séð um mjólkurpökkun. Önnur afurðastöðin er í Aintree hjá Liverpool en hin er í Fenstanton í Cambridgeskíri.

 

Með því að loka þessum afurðastöðvum munu 470 manns missa vinnuna en ein megin ástæða lokunarinnar er uppsögn stórverslunarkeðjunnar Tesco á ferskmjólkursamningi við Dairy Crest. Félagið mun þó eftir breytingarnar standa nokkuð sterkt, en árleg velta nemur um 325 milljörðum íslenskra króna og starfsmannafjöldinn eftir breytinguna verður um 3.500/SS.