Beint í efni

Takk fyrir árið kæra hestafólk

30.12.2021

Takk fyrir árið kæra hestafólk. Það er við hæfi kæru félagar að líta um öxl og rifja upp það helsta í lok árs sem og láta sér hlakka til komandi árs. Ég ætla í þessari stuttu grein ekki að fjalla mikið um kórónaveiruna en faraldurinn hefur auðvitað haft áhrif á okkar líf og starf þó svo að hrossaræktarstarfið og hestamennskan hafi haldið sínu striki ótrúlega vel. Við vonum auðvitað að komið sé að endasprettinum og að lífið komist í eðlilegra horf sem allra fyrst. Til komandi sumars horfum við með tilhlökkun enda ætlum við að halda glæsilegt landsmót hestamanna á Hellu og erum vongóð um að aðstæður á Íslandi og í heiminum verði þannig að það gangi allt saman upp. Dagskrá landsmótsins hefur verið kynnt, metnaðarfull og ræður bjartsýnin ein ríkjum á þeim bænum. Á mótið mæta kynbótahrossin til dóms að nýju eins og verðið hefur undanfarin landsmót og síðan keppt bæði í gæðinga og íþróttakeppni sem er nýbreyttni á landsmóti. Þannig að nóg verður um að vera enda saman kominir bestu knapa og gæðingar landsins og sagt er að framkvæmdarstjóri mótsins lofi sól og blíðu alla daganna. Félagsmál hrossabænda hafa verið talsvert fyrirferðamikil í starfi félagsins á þessu ári en það var ljóst eftir að Bændasamtök Íslands innleiddu nýtt félagsform s.l. sumar, svokallaða beina aðild, að öll búgreinafélögin þyrftu að taka ákvörðun hvernig þeirra félagsformi yrði háttað til framtíðar. Á aðalfundi Félags hrossabænda 13. nóvember og á framhaldsfundi aðalfundar  11. desember var tekin ákvörðun um að félagið verði að deild innan Bænasamtakanna frá og með 1. janúar 2022. Í deild hrossbænda verður unnið að okkar málefnum með sama hætti og áður enda hefur deild hrossabænda sínar samþykktir og markmið, þar sem allar helstu áherslur félagsins eru tilgreindar. Til þess að verða félagi í deild hrossabænda þarf fólk að skrá sig í Bændasamtökin, í deild hrossabænda og auðsóttar frekari skýringar hjá Bændasamtökunum um það ferli. Við hestafólk urðum fyrir talsverðu áfalli núna í ár vegna umfjöllunar og umræðu um blóðtöku úr fylfullum hryssum og hafa síðustu mánuðir verið okkur öllum erfiðir og umræða mikil. Það var því góð lausn til að faglega og vel verði farið ofaní saumanna á þessu starfi að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skipaði starfshóp sem falið verður að skoða starfsemina, regluverkið og eftirlitið í kringum hana auk þess að skoða löggjöf og mögulega framkvæmd slíkrar starfsemi erlendis. Á framhalds aðalfundi félagsins var í áliktun skorað á ráðherra að jafnframt verði skoðaðir heildarhagsmunir hrossaræktar og hestatengdrar starfsemi við ákvörðun um framtíð blóðtöku úr hryssum. Í greinargerð með ályktuninni kemur fram að fundurinn hafi áhyggjur af því að þessi starfsemi eigi ekki samleið með því umfangsmikla starfi sem tengist íslenska hestinum og geti skaðað ásýnd hans og orðspor. En það er ánægjulegt að geta fagnað því að árið í ár er algert metár í útflutningi á hrossum en alls fara 3.341 hross út á árinu og er það þá annað árið í röð sem útflutningur eykst verulega. Hvað veldur þessari auknu eftirspurn er sjálfsagt samspil ýmissa þátta en við sem stöndum að markaðsverkefninu Horses of Iceland erum þess fullviss að sú markaðsvinna sem unnin hefur verið í því starfi undanfarin ár sé að skila sér með þessum hætti sem og áhuga á Íslandi og þurfum við að halda þeirri vinnu ótrauð áfram. Mikil uppbygging hefur orðið í kringum hestahald á síðustu árum og mikill metnaður hjá hestafólki að standa að hestamennskunni af mikill prýði. Það má meðal annars sjá á þeim vaxandi fjölda fólks sem hefur sótt sér menntun í hestafræðum auk þess stóra hóps sem starfar við hestatengda starfsemi. Framhaldið verður því spennandi og okkar helstu sóknarfæri að vanda til verka en okkar besta auglýsing er og verður góður aðbúnaður okkar hrossa og ánægðir viðskiptavinir. Um leið og ég þakka félagsfólki mínu og hestafólki öllu fyrir samstarfið á árinu sem er að líða, óska ég ykkur öllum gleðilegs nýs árs og hvet ég ykkur til að huga vel að hrossunum ykkar hvort sem er á húsi eða í haga áður en flugeldaæðið rennur á landsmenn. Með hátíðarkveðju og óskum um gott og farsælt komandi ár. f.h. Félags hrossabænda Sveinn Steinarsson, formaður