Beint í efni

Taka 250-300 lítra á tímann!

27.08.2011

Í Danmörku er starfsemi ráðunauta með töluvert öðrum hætti en hér á landi en miklar breytingar hafa orðið á störfum þeirra á undanförnum árum. Öll vinna þeirra er rukkuð fullu verði og fá búnaðarsamböndin hvorki styrki né beinar tekjur frá bændum og eru engin takmörk á því hvar ráðunautur veitir þjónustu sína. Þannig er t.d. ráðgjafamiðstöðin í Ringköbing (á vesturströnd Jótlands) með þjónustu við kúabændur á Sjálandi og öfugt svo dæmi sé tekið.

 

Um alla Danmörk hefur verið hagrætt mikið í ráðgjafageiranum og samruni búnaðarsambanda verið nánast daglegt brauð. Nú er svo komið að á flestum stöðum eru teymi u.þ.b. 10 nautgriparáðunauta í fullu starfi sem þjónusta hver 60 kúabúum að jafnaði. Í hverju teymi eru oft 5-6 sérfræðingar í fóðrun, fóðurverkun og umhirðu gripa, 2-3 sérfræðingar sem sjá um áburðaráætlun, skipulag ræktunarmála, umsóknir um jarðræktarstyrki osfrv. og svo 2-3 sérfræðingar í fjármálum.

 

Mikil krafa er lögð á hendur ráðunautum á að selja út vinnu sína og er miðað við 700-1.000 selda tíma á ári eða allt að 5 klst. á dag! Full samkeppni ríkir um ráðgjöfina en verðið er það sama um allt land, 850 Dkr/klst eða sem nemur 250-300 lítrum mjólkur (m.v. algengt afurðastöðvaverð). Þó svo að upphæðin hljómi afar há þá geta bændurnir verið nokkuð tryggir gagnvart kaupum á þjónustu danskra ráðunauta því ef útlit er fyrir að ráðgjöfin skili ekki bóndanum amk. fjórföldum tekjum til baka á móti útlögðum kostnaði við ráðgjöfina, þá er einfaldlega ekki farið í ráðgjafaheimsóknina nema bóndinn vilji það engu að síður. Þannig eru allar ráðgjafaheimsóknir metnar út frá hagfræðilegu vægi áður en farið er af stað.

 

Vegna stöðugt fækkunar búa horfa nú danskir ráðunautar út fyrir landsins steina og eru byrjaðir að bjóða pakkalausnir í ráðgjöf fyrir stærri kúabúin í nágrannalöndunum s.s. Svíþjóð, Noregi, Þýskalandi, Póllandi og nokkrum fleiri löndum í austurhluta Evrópu /SS.