Tæplega 300 heimsóknir daglega á naut.is
01.04.2007
Eins og aðrar betri vefsíður er naut.is áskrifandi að vefmælingu Modernus ehf. Samkvæmt niðurstöðum fyrirtækisins voru heimsóknir á síðuna í nýliðnum marsmánuði 8.761 eða rúmlega 280 heimsóknir á dag og flettingar voru ríflega 24.000 talsins. Það eru tæplega 800 flettingar á dag. Eins og gefur að skilja er forsíðan sá hluti síðunnar sem mest er lesinn með 9.500 flettingar, kýrhausinn þar á eftir með 6.900 og eldri fréttir með tæplega 3.000 flettingar. Aðrir hlutar síðunnar eru talsvert minna lesnir.
Vikulega kemur annað yfirlit frá Modernus og má þar sjá umferðina á vefnum eftir dögum. Oft er heldur meiri umferð á þriðju- og miðvikudögum, en um helgar er minnst um að vera. Ánægjulegt er að sjá hvað fjölmiðlar eru virkir að birta fréttir af naut.is. Er það vafalítið því að þakka að fyrirsagnir frétta eru sendar tæplega 200 áskrifendum í tölvupósti, þegar þær eru settar inn. Einnig er kýrhausinn á köflum mjög líflegur, þó dagurinn í dag sé með þeim betri hvað það varðar. Síðan í maílok 2002 (elstu umræðuþræðir í vefgrunni) hafa verið stofnaðir 296 þræðir og fjöldi skilaboða er alls orðinn 1.056. Á fréttasíðuna hafa verið settar 860 fréttir síðan 13. júlí 2001. Kennir þar ýmissa grasa. Að lokum má geta þess að vefur Landssambands kúabænda er hýstur hjá hinu ágæta fyrirtæki Nepal í Borgarnesi.