Beint í efni

Systa heldur toppsætinu og Hraunkot einnig!

13.09.2011

Niðurstöður skýrsluhaldsins fyrir ágúst 2011 eru nú komnar út hjá Bændasamtökunum, en litlar breytingar hafa orðið frá síðasta mánuði. Meðalafurðir í Hraunkoti reiknast hæstar yfir landið og kýrin Systa frá Syðri-Bægisá heldur enn efsta sæti kúa annan mánuðinn í röð.
 
Alls komu 601 bú til uppgjörs sem eru hlutfallsleg skil upp á 94%. Fjöldi árskúa í þessum skýrsluskilum var 22.080 eða 39,3 árskýr að jafnaði á hvern skýrsluhaldshafa. Í júlí sl. var meðalfjöldinn hinsvegar ekki nema 36,0 sem bendir til að í skýrsluskilin þá hafi vantað uppgjör stórra skýrsluhaldsbúa.
 
Þegar horft er til meðalafurðanna kemur fram að heldur slaknar á meðalafurðunum sem er bagalegt en afurðirnar fara úr 5.355 kg í júlí í 5.334 kg í ágúst eða niður fyrir meðalafurðir júní mánaðar. Próteinhlutfallið var 3,37 (hækkar um 0,01 frá júlí) og fituhlutfallið 4,22 (hækkar um 0,01 frá júlí) og framleiðsla verðmætaefna því 404,9 kg sem er örlítið minna en í júlí. Hækkun á efnainnihaldi nær því næstum því að vega upp afurðaminnkunina á milli mánaða. Sé horft til sambærilegra niðurstaðna í ágúst í fyrra sést vel stöðnunin í meðalafurðunum nú um stundir en afurðirnar í ágúst 2010 voru nákvæmlega þær sömu og þær reiknast núna eða 5.334 kg. Samtals reiknast nú 15 bú yfir 7.000 lítra meðalnyt sem er einu búi minna en í júlí.
 
– Mestar meðalafurðir búa með færri en 40 árskýr eru nú í Hraunkoti (17,0 árskýr) en þar var meðalnytin 8.079 kg með 4,31% fitu og 3,50% próteini og magn verðmætaefna mjólkurinnar því að jafnaði 631kg. Hraunkot var einnig afurðahæsta búið í þessum flokki í júlí.
 
– Mestar meðalafurðir búa með 40-80 árskýr eru nú á ný í Kirkjulæk 2 Reykjahlíð (41,6 árskýr) þar sem meðalnytin reiknast nú 7.948 kg með 4,10% fitu og 3,49% próteini og magn verðmætaefna mjólkurinnar því að jafnaði 603 kg. Í síðasta mánuði var Kirkjulækur einnig afurðahæsta búið í þessum stærðarflokki.
 
– Mestar meðalafurðir búa með fleiri en 80 árskýr eru sem fyrr í Gunnbjarnarholti (99,3 árskýr), en þar var meðalnytin 7.422 kg með 4,08% fitu og 3,43% prótein og magn verðmætaefna mjólkurinnar því 557 kg. Ekkert bú í þessum stærðarflokki er enn sem komið er nálægt meðalafurðunum í Gunnbjarnarholti og hefur verið svo í marga mánuði.
 
Afurðahæsta kýr landsins (reiknað út frá kg mjólkur) er enn á toppnum frá síðasta mánuði en það er kýrin Systa 361 (undan Tein 970001) frá Syðri-Bægisá með 12.394 kg sl. 12 mánuði með 3,26% próteini og 4,08% fitu og verðmætaefnin því alls 910 kg. Er all nokkuð bil frá Systu 361 niður í næst afurðahæstu kú landsins, hana Treyju 387 frá Hrepphólum, en hún var með 11.474 kg í nyt sl. 12 mánuði.

Fram kemur í yfirliti BÍ að 12 kýr mjólkuðu yfir 11 þúsund kg./SS

 
Smelltu hér til að fræðast nánar um niðurstöður skýrsluhaldsins