Beint í efni

Sýnataka og mæling mjólkursýna hjá RM

21.04.2006

Fyrir nokkru var talsverð umræða á kýrhaus naut.is um mjólkursýnatöku, svo og um breytileika í niðurstöðum og skýringar á þeim.
 Án þess að blanda mér í umræðuna um sölubannsreglur, sem líklega gætu verið vitlegri, vil ég þó reyna að leiðrétta misskilning sem menn virðast hafa gefið sér, að séu tekin 2 sýni úr sama tankinum eða kúnni geti mismunurinn í frumutölu orðið 20- 40%. Menn hafa einnig nefnt umtalsverðann mælingarmun í magni fitu og próteins, þ.e. greiðsluþáttunum. Þeir sem telja sig hafa orðið einhvers slíks varir hafa ekki verið með sambærileg sýni.
 Raunhæfasta leiðin fyrir okkur í RM til að ganga úr skugga um mælistöðugleika er að taka slatta af mjólk (t.d. restar af nýmældum sýnum) og blanda vel. Taka síðan úr þessu t.d. 10 ný sýni og mæla þau hvert á eftir öðru. Þetta gerðum við núna og af þessu tilefni, höfum reyndar gert það ótal oft áður. Niðurstöðurnar hafa ávallt verið mjög líkar þeim sem við nú fengum og birtast í meðfylgjandi töflu með nokkrum helztu mælingarþáttunum og frumutölu. Mælingarsveifla er lítil í mikilvægustu þáttunum, þ.m.t. greiðsluþáttunum.

Efni í fullri/góðri upplausn eru jafnt dreifð í mjólkinni, því er mæling þeirra almennt sveiflulítil. Þetta á þó ekki alveg við úrefnismælinguna, sem sjá má í töflunni. Orsökin er m.a. sú að hér er efnismagnið mjög lítið, hver mælieining efnisins (milliMol í lítra) samsvarar minnu en 0,006%. Það er þó ólíku saman að jafna, nýjum mælitækjum RM, sem nú eru notuð, og eldri búnaði. Hann var mun ónákvæmari en sá sem nú er í notkun.   Frumur eru „óuppleystar agnir” sem geta verið ójafnt dreifðar og mælast/teljast því eftir því hvar þær eru staddar í mjólkinni þegar sýnið er tekið. Því er alltaf nokkur munur á frumutalningum, þótt nær samhliða séu, og því meiri sem mjólkin er lakar blönduð. Hafi mjólk staðið óhreyfð í 20 mín. eða lengur getur þess orðið vart í frumutalningunni. Óþarft er að ræða frostmarksmælinguna, nákvæmni hennar sést glögglega í töflunni, enda er hún höfð hér með til að sýna hvernig hlutirnir gerast beztir.
Nánast öll „frávik” í niðurstöðum RM má rekja til sýnatökunnar eða meðferðar sýnanna. Hvað bændur varðar er skilyrðið að sýnið sé tekið úr (ný)hrærðum heimilistanki eða úr blandaðri – ALLRI – mjólk hverrar kýr, þegar um það ræðir. Vélræn tækni til sýnatöku (sneiðtaka) verður allsráðandi innan skamms, hún er síður en svo nákvæmari en vönduð handvirk taka, en er handhægt barn nútímans.

 

10 sýni tekin úr sömu mjólkinni hjá RM

Sýni nr. Fita Prótein Úrefni Frumutala Frostmark
1 4,48 3,50 7,01 261 -0,535
2 4,47 3,51 6,84 267 -0,535
3 4,47 3,50 7,08 262 -0,535
4 4,46 3,49 6,99 274 -0,535
5 4,47 3,50 7,05 272 -0,535
6 4,47 3,50 7,27 260 -0,535
7 4,46 3,50 7,14 272 -0,535
8 4,46 3,50 7,01 260 -0,535
9 4,46 3,50 7,00 255 -0,535
10 4,45 3,50 6,82 269 -0,535