Beint í efni

Svör við ESB-spurningalista verði tekin til umfjöllunar í utanríkismálanefnd

21.09.2009

Bændasamtökin sendu utanríkisráðuneytinu erindi 11. september sl. þar sem farið var fram á að spurningalistar ESB, sem fjalla um landbúnað, yrðu þýddir á íslensku. Ekkert svar hefur borist frá ráðuneytinu en samtökin hafa nú ítrekað óskir sínar með öðru bréfi.

Enn fremur hvetja BÍ  til þess að svör við spurningum ESB verði tekin til umfjöllunar  í utanríkismálanefnd Alþingis áður en þau verða send út, þannig að sjónarmið ýmissa hagsmunahópa í þjóðfélaginu komi fram og fylgi svörunum. Þá leggja samtökin áherslu á að nauðsynleg og opinská umræða fari fram, líkt og fram kemur í nefndaráliti með þingsályktun Alþingis um aðildarumsókn að ESB.

Í bréfinu sem sent var í dag var einnig óskað eftir því að fá til skoðunar með góðum fyrirvara fyrir skil, á íslenskri tungu, öll svör annarra stofnana og ráðuneyta sem kunna að varða landbúnaðar- og byggðamál. Þá vöktu Bændasamtökin athygli á því að ýmsa fyrirvara þarf að gera varðandi landbúnaðar- og byggðamál þegar spurningalista ESB er svarað. Munu samtökin láta slíka fyrirvara fylgja þeim svörum sem þau vinna.