Svona var nautakjötsframleiðslan árið 2007
06.03.2008
Á síðasta ári var lógað í sláturhúsum hér á landi 21.541 nautgrip. Það er fjölgun um 1.781 grip frá árinu 2006. Mest munar um fjölgun ungneyta, 749 stykki og þá var lógað 464 fleiri kúm en árið 2006. Framleiðslan var alls 3.551 tonn, sem er aukning um rúm 11%. Þær breytingar urðu helstar á flokkun ungnautakjötsins, að hlutdeild úrvalsflokks ungneyta eykst úr rúmum 10% í tæp 12% og hlutdeild UN2 lækkar úr 5,4% í 4%. Flokkunin hefur því haldið áfram að batna. Meðalþungi skrokka var svipaður og á síðasta ári, einna helst er að sjá að kýrskrokkarnir hafi verið örlítið þyngri á síðasta ári en árinu 2006. Nánari upplýsingar um framleiðslu í einstökum flokkum er að finna í töflunni hér að neðan.
Verð til bænda á nautakjöti hélst óbreytt nær allt síðastliðið ár, en hefur hækkað á síðustu dögum um 10-30 kr/kg hjá tveimur sláturleyfishöfum, SS og Sláturhúsinu Hellu hf. Beðið er viðbragða frá hinum fjórum. Í þessu samhengi má benda á að danski sláturrisinn Danish Crown hefur það sem af er þessu ári hækkað verð til nautakjötsframleiðenda um 2,30 DKK sem eru um 31,40 ISK á kg.
Í fréttabréfi fyrirtækisins frá 29. febrúar sl. kemur fram að framboð á nautakjöti á meginlandi Evrópu sé minna en eftirspurnin. Í ljósi þess að páskar og vorið er á næsta leyti, þá meta þeir söluhorfur á markaði mjög góðar á næstunni. Það eru því líkur til að nautakjötsverð í nágrannalöndunum fari enn hækkandi á komandi mánuðum.
Stykkjafjöldi | Framleiðsla í kg | Meðalþungi, kg | |||||||
Flokkur | 2006 | 2007 | Breyting | 2006 | 2007 | Breyting | 2006 | 2007 | Breyting |
Ungkálfar, UK | 3.134 | 3.434 | 9,6% | 58.506 | 65.136 | 11,3% | 18,7 | 19,0 | 1,6% |
UN úrval, ungnaut | 855 | 1.095 | 28,1% | 229.832 | 296.013 | 28,8% | 268,8 | 270,3 | 0,6% |
UN 1, ungnaut | 6.985 | 7.734 | 10,7% | 1.566.733 | 1.733.684 | 10,7% | 224,3 | 224,2 | -0,1% |
UN 2, ungnaut | 448 | 369 | -17,6% | 66.625 | 52.815 | -20,7% | 148,7 | 143,1 | -3,8% |
K 1 U, ungar kýr | 1.382 | 1.488 | 7,7% | 276.288 | 304.334 | 10,2% | 199,9 | 204,5 | 2,3% |
K, kýr | 4.950 | 5.414 | 9,4% | 992.476 | 1.097.942 | 10,6% | 200,5 | 202,8 | 1,1% |
Alls | 19.760 | 21.541 | 9,0% | 3.192.466 | 3.551.931 | 11,3% |