Beint í efni

Svona gekk mjólkurframleiðslan 2007

07.01.2008

Innvigtun til mjólkursamlaga innan SAM var á árinu 2007 124.815.782 lítrar, í heild má því ætla að heildarframleiðslan á nýliðnu ári hafi verið um 126 milljónir lítra. Þar með hefur metið, sem staðið hefur allt frá árinu 1978, 120,2 milljónir lítra, verið slegið rækilega.

 

Árið 2000 var framleiðslan 104 milljónir lítra, þannig að aukningin er 21,1%. Á sama tíma hefur framleiðendum fækkað úr 1040 árið 2000 niður í 750 á því nýliðna, eða um 28%. Framleiðsla á hverju búi hefur því aukist úr réttum 100 þús. lítrum í 168 þús. lítra eða um 68%. Það er ekki lítil aukning á einungis 7 árum.

Alþjóðasamtök mjólkuriðnaðarins, IDF, hafa áætlað framleiðsluna hjá 55 stærstu mjólkurframleiðsluþjóðunum. Samkvæmt þeirri áætlun var framleiðslan þar 551 milljón tonna árið 2007. Það er aukning um 12,7% frá árinu 2000. Í töflunni hér að neðan má sjá framleiðsluna í 10 stærstu framleiðslulöndum heims á sl. ári og hvernig hún var árið 2000. Þessar tölur innifela kúa- og buffalamjólk.

 

 

Land

Mjólkurframleiðsla árið 2000, milljónir tonna

Mjólkurframleiðsla árið 2007, milljónir tonna

Indland* 76,5 94,6
Bandaríkin 76,0 82,6
Kína 8,4 36,0
Rússland 31,9 32,0
Pakistan* 24,9 30,0
Þýskaland 28,3 28,3
Brasilía 22,1 26,2
Frakkland 25,0 24,3
Nýja-Sjáland 12,7 15,7
Bretland 14,5 14,1

*Meira en helmingur mjólkurframleiðslunnar er buffalamjólk í þessum löndum.

 

Næstu lönd á listanum árið 2007 eru Úkraína, Pólland, Ítalía, Holland, Mexíkó, Tyrkland, Argentína, Ástralía, Japan og Kanada.

 

Þróun framleiðslunnar er afar misjöfn eftir því hvar er borið niður í heiminum. Það kemur ekki alveg á óvart að vöxtur framleiðslunnar er langsamlega örastur í Kína. Þar hefur framleiðslan vaxið um 328% á 7 árum. Þar á eftir kemur Króatía, með 91% framleiðsluaukningu síðan árið 2000. Í þriðja sæti er Uruguay (57%), síðan koma Rúmenía (51%), Kasakstan (32%), Hvíta-Rússland (30%), Indland (24%), Nýja-Sjáland (24%), Slóvenía (23%), Ísland (21%) og Pakistan (20%.

 

Eftir nær samfelldan 7 ára þurrk hefur mjólkurframleiðslan minnkað mest í Ástralíu frá því árið 2000, eða um 14,6%. Framleiðslan minnkaði einnig milli áranna 2000 og 2007 í Ungverjalandi (-14%), Búlgaríu (-10%), Svíþjóð (-9%), Japan (-5%) og Frakklandi (-3%).

 

Heimild: Dairy Industry Newsletter.