Beint í efni

Svona er starfsumhverfi mjólkurframleiðslunnar!

20.08.2010

Mikið hefur verið rætt undanfarna daga um fyrirhugaðar breytingar á búvörulögum. Umræðan hefur að talsverðu leyti markast af vanþekkingu á starfsumhverfi mjólkurframleiðslu og -vinnslu, bæði hér á landi og annars staðar. Landssamband kúabænda hefur tekið saman yfirlit yfir meginatriði í rekstrar- og lagaumhverfi greinarinnar, sem fara hér á eftir. Ýtarlegri umfjöllun er síðan að finna hér.

 

• Engar eðlisbreytingar felast í frumvarpi landbúnaðarráðherra um breytingar á búvörulögunum.

• Áfram er hverjum sem er heimilt að setja á laggirnar kúabú, kaupa kýr og framleiðslukvóta og framleiða fyrir innanlandsmarkað. Einnig er unnt að sleppa því að kaupa kvóta og framleiða til útflutnings. Það standa allir jafnfætis gagnvart lögum hvað varðar framleiðslu mjólkur.

• Ekkert í frumvarpinu gerir nýjum aðilum erfiðara fyrir að stofna og reka mjólkurvinnslu.

• Öllum er heimilt, án takmarkana, að stofna mjólkurvinnslu og selja afurðir hér hvort heldur þær eru framleiddar úr greiðslumarksmjólk fyrir innanlandsmarkað eða úr umframmjólk fyrir erlendan markað.

• Mjólkursamlögum er óheimilt að taka við mjólk frá framleiðendum umfram greiðslumark og markaðssetja afurðir úr henni á innanlandsmarkaði. Með frumvarpinu er verið að leggja viðurlög á þá sem hugsanlega brjóta lögin.

• Með frumvarpinu er ýtt undir nýsköpun. Samkvæmt því er bændum í fyrsta skipti heimilt að framleiða mjólkurvörur úr sem samsvarar 10 þúsund lítrum af mjólk, umfram greiðslumark. Þess breyting kemur til móts við þá sem vilja byggja upp lítil nýsköpunarfyrirtæki og selja afurðir sínar beint frá býli. Líklegt er að þessi heimild verði aukin í 15 þúsund lítra, samkvæmt tillögu landbúnaðarnefndar Alþingis.

• Ríkisvaldið úthlutar bændum framleiðslukvóta, sem þeir geta keypt og selt sín í milli. Framleiðslukvóta mjólkur er ætlað að koma í veg fyrir offramleiðslu og miklar sveiflur á mjólkurmarkaði.

• Hundruð kúabænda hafa skuldsett sig til að kaupa framleiðslukvóta.  Heildarskuldir þeirra vegna kvótakaupa nema nú 14 til 16 milljörðum króna. Það er ósanngjarnt gagnvart bændum, sem hafa farið að reglum, að gera nokkuð sem stefnir kvótakerfinu í bráðan voða án nokkurrar aðlögunar. Það myndi stefna fjárhag þessara bænda og fjölskyldna þeirra í mikla hættu og hugsanlega kollvarpa mjólkurframleiðslu í landinu. 

• Bændur geta framleitt mjólk án þess að eiga kvóta. Þá er mjólkurvinnslum skylt að selja þá mjólk úr landi. Undanfarin ár hefur um 6 – 8% framleiðslunnar verið seld úr landi í samræmi við þessi lög.

• Opinber verðlagsnefnd, sem í sitja m.a. fulltrúar ASÍ og BSRB, ákveður mjólkurverð til bænda. Þar standa öll mjólkurbú jöfn við öflun hráefnis, bæði stór og smá bú. Bændur hafa ekki sjálfdæmi um verðlagningu á hráefninu.

• Sama nefnd að verðleggur einnig heilsöluverð tiltekna vöruflokka, sem eru unnir úr meirihluta mjólkurframleiðslunnar. Vinnslufyrirtækin hafa ekki sjálfdæmi um verðlagningu.

• Á síðustu fimm árum hefur verð á mjólkurvörum lækkað að raungildi um 15% og á sama tíma hefur verð til bænda hækkað.

• Neysla mjólkurafurða er mjög mikil hérlendis og Íslendingar neyta um 60% meira af mjólkurafurðum en gengur og gerist í Evrópu.

• Hér á landi er óvenju fjölbreytt úrval mjólkurvara á markaði og verð mjólkurafurða er hagstætt. Í verðkönnun sem Hagstofa Íslands birti 29. júní 2010 kom fram að verð á mjólkurvörum hérlendis er 9% lægra en meðalverð mjólkurvara í Evrópu.

• Mjólkurframleiðslu í öllum löndum Evrópusambandsins og Noregi, er stýrt með kvótakerfi. Ástæðan er sú sama og hér á landi, stjórnvöld freista þess að koma í veg fyrir skaðlegar sveiflur og offramleiðslu. 

• Bændur og ríki í Evrópusambandinu, sem framleiða mjólk umfram þann framleiðslukvóta sem þeir hafa, greiða fjársektir sem nema 42,82 krónum á ltr. mjólkur.

• Evrópusambandið hyggst leggja kvótakerfið af, a.m.k. í núverandi mynd eftir fimm ár. Gert er ráð fyrir að við taki svipað eða annað kerfi til þess að stjórna framleiðslunni.  Það er hins vegar lykilatriði að allar breytingar hafa nægan aðdraganda. Umræðan í aðildarlöndum ESB um afnám kvótakerfis í mjólkurframleiðslu hófst fyrir 12-14 árum síðan. Verði kvótakerfið lagt af í löndum Evrópusambandsins eða breytt þann 1. apríl 2015, munu bændur hafa haft tæpa tvo áratugi til að búa sig undir nýtt framleiðsluumhverfi.