Beint í efni

Sviss endurskoðar útflutningsbætur á osta

24.04.2013

Yfirvöld í Sviss hafa nú tekið til endurskoðunar útflutningsbætur landsins á ostum og á þeirri endurskoðun að ljúka í ár. Hingað til hafa útflytjendur á ostum fengið styrki til þess að auðvelda útflutninginn á hvert kíló osts en kerfið hefur verið gagnrýnt þar sem ekki er tilgreint um efnainnihald osta sem fá útflutningsbætur.

 

Framleiðendur osta hafa því notað kerfið og framleitt osta með 15% fitu eða jafnvel minna og selt í raun sem hráefni til frekari vinnslu erlendis en samt notið styrkja. Big-M, sem eru samtök bænda, hafa gagnrýnt kerfið harðlega enda var ekki tilgangur útflutningsbótanna að koma úr landi einhverri afsláttarvöru heldur að markaðssetja gæðaosta frá Sviss og þar með hækka afurðaverð til bændanna. Árið 2012 nam útflutningur á þessum fitusnauða osti alls 5.000 tonnum og námu útflutningsbætur svissneska ríkisins milljörðum króna en lítið af þeim fjármunum hafa skilað sér í hækkuðu afurðaverði til bænda/SS.