Beint í efni

Sviptingar á toppnum!

12.07.2011

Niðurstöður skýrsluhaldsins fyrir júní 2011 eru nú komnar út hjá Bændasamtökunum og hafa orðið all nokkrar breytingar á stöðu búa og kúa frá síðasta uppgjöri. Þannig hefur Hófý frá Keldudal náð efsta sætinu af Grásu frá Gunnbjarnarholti og jafnframt reiknast nú meðalafurðirnar í Reykjahlíð hæstar yfir landið eftir langa setu Hraunsháls í efsta sæti.

 

Alls komu 605 bú til uppgjörs sem eru hlutfallsleg skil upp á 90%, en 607 bú voru með í mánuðinum þar á undan. Fjöldi árskúa í þessum skýrsluskilum var 21.360 eða 36,5 árskýr að jafnaði á hvern skýrsluhaldshafa. Í maí sl. var meðalfjöldinn sá sami.

 

Þegar horft er til meðalafurðanna kemur fram að meðalafurðirnar eru að þokast í rétta átt á ný eftir lækkun í síðasta mánuði og fara nú úr 5.330 kg í maí í 5.335 kg í júní. Próteinhlutfallið var 3,36 og fituhlutfallið 4,20 og framleiðsla verðmætaefna því 403,3 kg. Sé horft til sambærilegra niðurstaðna í júní í fyrra voru meðalafurðirnar þá 5.298 kg. Afurðirnar eru því að aukast frá því fyrir 12 mánuðum um 0,7% (jukust um 4,2% frá maí 2010 – maí 2011) og má því segja að framgangurinn í afurðaaukningu sé vel innan marka. Samtals reiknast nú 16 bú yfir 7.000 lítra meðalnyt sem er fækkun um eitt bú frá því í maí.

 

– Mestar meðalafurðir búa með færri en 40 árskýr eru nú á Hóli í Sæmundarhlíð (34,0 árskýr) en þar var meðalnytin 7.796 kg með 4,07% fitu og 3,49% próteini og magn verðmætaefna mjólkurinnar því að jafnaði 589 kg. Undanfarna mánuði hafði Hraunháls setið fast á toppnum í þessum flokki búa, en er nú skammt undan!

 

– Mestar meðalafurðir búa með 40-80 árskýr eru nú í Reykjahlíð (57,7 árskýr) þar sem meðalnytin reiknast nú 7.834 kg með 4,03% fitu og 3,42% próteini og magn verðmætaefna mjólkurinnar því að jafnaði 584 kg. Undanfarna mánuði hefur Kirkjulækur 2 setið fast á toppnum í þessum stærðarflokki búa, en er rétt eins og Hraunháls rétt á eftir að þessu sinni!

 

– Mestar meðalafurðir búa með fleiri en 80 árskýr eru sem fyrr í Gunnbjarnarholti (100,1 árskýr), en þar var meðalnytin 7.591 kg með 4,07% fitu og 3,43% prótein og magn verðmætaefna mjólkurinnar því 569 kg. Ekkert bú í þessum stærðarflokki er enn sem komið er nálægt meðalafurðunum í Gunnbjarnarholti!

 

Afurðahæsta kýr landsins (reiknað út frá kg mjólkur) er nú ný á toppnum en það er kýrin Hófý (undan Stíg 970010) frá Keldudal í Skagafirði með 11.690 kg sl. 12 mánuði með 3,46% próteini og 4,37% fitu og verðmætaefnin því alls 915 kg.

Fram kemur í yfirliti BÍ að 6 kýr mjólkuðu yfir 11 þúsund kg en engin fór yfir yfir 12 þúsund kg. /SS

 

Allar nánari upplýsingar má lesa á upplýsingasíðu BÍ um skýrsluhaldið með því að smella hér.