Beint í efni

Svíar selja Rússum kýr

25.09.2015

Vegna erfiðrar stöðu kúabænda í Svíþjóð hafa margir þar í landi átt þann eina kostinn að losa um kýrnar sínar og koma þeim í verð. Sem kunnugt er, er ein ástæðan fyrir erfiðri stöðu lokun markaðarins í Rússlandi en þar fæst einmitt nú um stundir einna besta verðið fyrir kýrnar! Þetta er vissulega sterkur leikur hjá Rússum en þarlendir kúabændur og yfirvöld hafa séð í hendi sér tækifæri til þess að kaupa góða kynbótagripi, gripi sem ella væru etv. ekki einusinni falir.

 

Rússarnir kaupa bæði svartskjöldóttar kýr og rauðar sænskar en nýverið barst pöntun upp á 800 kýr en þær munu klárlega verða góð innspýting erfðaefnis inn í rússneska kynið enda þær sænsku einkar afurðaháar, nokkuð sem ekki beint er umtalað um rússneskar kýr. Alls er talið að í ár muni verða fluttar inn til Rússlands 40-45 þúsund mjólkurkýr, aðallega frá Bandaríkjunum, Þýskalandi, Hollandi og Ungverjalandi en einnig lítillega frá Skandinavíu/SS.