Svíakonungur orðinn kúabóndi!
12.07.2016
Karl Gústav XVI, konungur Svía, er orðinn kúabóndi en nýverið keypti hann 90 holdakýr auk kálfa af holdakyninu Simmental. Kýr þessar voru reyndar þegar á jörð sem tilheyrir Stenhammar höllinni við Flen, en voru í eigu sænska landbúnaðarháskólans og voru nýttar í þágu rannsókna skólans. Skólinn vildi losa sig við kýrnar og því sló konungurinn til og keypti alla hjörðina!
Samkvæmt sænskum fréttum nam kaupverðið 1,4 milljónum sænskra króna eða sem nemur um 20 milljónum íslenskra króna. Við óskum sænska konunginum til hamingju með þessa skynsamlegu ákvörðun og bjóðum hann velkominn í hóp kúabænda heimsins/SS.