Beint í efni

Sverrir Heiðar kennari á Hvanneyri látinn

14.01.2009

Sverrir Heiðar Júlíusson, brautarstjóri búfræðibrautar Lbhí á Hvanneyri og kennari í nautgriparækt lést 12. janúar s.l. eftir eins og hálfs árs baráttu við krabbamein. Sverrir hóf störf við Hvanneyrarskóla strax að loknu B.Sc. prófi í búvísindum árið 1991. Hann kenndi nautgriparækt í bændadeild um árabil, einkum þann hluta er sneri að fóðurverkun og fóðrun mjólkurkúa. Einnig kenndi hann kanínurækt og átti stóran þátt í að koma á fót fjarnámi í búfræði.

Sverrir var mikill áhugamaður um búskap og dvaldi langdvölum í æsku hjá afa sínum og ömmu að Skógum á Þelamörk. Eyjafjörðurinn var honum afar kær og þykist ég vita að hugur hans hafi staðið til að gerast kúabóndi í því ágæta héraði. Á námsárunum var hann starfsmaður Búnaðarsambands Eyjafjarðar, þar sem hann vann m.a. að túnkortagerð. Fljótlega eftir að hann hóf störf á Hvanneyri tók hann til við að afla sér kennsluréttinda, enda þá þegar orðinn yfirkennari við bændadeild Bændaskólans. Þeim áfanga náði hann 1996. Auk þessa skrifaði hann fjölda greina í blöð og tímarit um landbúnaðarmál. Sverrir hafði ákveðnar skoðanir og talaði óhikað fyrir þeim málum sem hann hafði sannfæringu fyrir.

 

Síðustu misseri sendi hann vinum og ættingjum reglulega fréttir af gangi mála. Þar má glöggt sjá að hann mætti veikindum sínum af æðruleysi og bjartsýni. Sverrir Heiðar var glaðsinna maður. Náttúrubarn. Hafði yndi af útivist og stangveiði. Liðtækur knattspyrnumaður og þjálfari með Skallagrími og UMF Íslendingi, á erlendri grundu hélt hann að sjálfsögðu með rétta klúbbnum, Liverpool F.C. Góður drengur og gegnheill.

 

Sverrir Heiðar var 41 árs er hann lést, fæddur 1. maí 1967.

 

Landssamband kúabænda færir fjölskyldu og vinum Sverris Heiðars innilegustu samúðarkveðjur.