Svensk Mjölk varar við breytingum á dýralöggjöf
24.08.2012
Svensk Mjölk, sjálfstætt hagsmunafélag kúabænda og afurðastöðva í Svíþjóð, varar við því að gerðar verði breytingar á þarlendri löggjöf um dýravelferð. Hugmyndir eru uppi um að banna algjörlega básafjós sem Svensk Mjölk hefur mótmælt og telur að slíkar kröfur muni skaða sænska mjólkurframleiðslu.
Jonas Carlsson, dýralæknir hjá Svensk Mjölk, hefur bent á þá staðreynd að þessar fjósgerðir séu á leiðinni út úr framleiðslu hvort sem er og bannað sé að byggja ný slík fjós. Að banna mjólkurframleiðslu í þessum fjósum innan fárra ára, muni hinsvegar leiða til þess að margir verða að hætta fyrr en þeir ætla og það muni einfaldlega bitna á landsframleiðslunni á mjólk. Það muni svo kalla á innflutning á mjólk frá löndum þar sem dýravelferðin er ekki eins góð og í Svíþjóð, að mati Jonasar. Slíkan innflutning er ekki hægt að stoppa þrátt fyrir augljósan mun á framleiðsluaðstæðum og það skekki því stórkostlega samkeppnisstöðu sænskra kúabænda/SS.