Svar Íslandspósts vegna ályktunar aðalfundar LK um póstþjónustu
08.06.2016
Aðalfundur Landssambands kúabænda 2016 samþykkti svofellda ályktun um póstþjónustu, sem send var til Íslandspósts:
25. Póstþjónusta í dreifbýli
Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn í Reykjavík 31. mars til 1. apríl 2016 mótmælir harðlega þeirri miklu skerðingu á póstþjónustu í dreifbýli og því verklagi sem boðað er. Fundurinn telur frumskilyrði að pósturinn berist alltaf sömu vikudaga og verði keyrður út þrisvar í viku.
Á dögunum barst samtökunum svarbréf frá Íslandspósti, undirritað af Ingimundi Sigurpálssyni, forstjóra. Bréfið er svohljóðandi:
„Á fundi stjórnar Íslandspósts ohf., sem haldinn var 30. maí sl. var m.a. lagt fram bréf Landssambands kúabænda dags. 12.5.2016, þar sem kynnt var ályktun frá aðalfundi sambandsins 2016 og mótmælt var skerðingu á póstþjónustu í dreifbýli. Fundurinn telur frumskilyrði að pósturinn berist alltaf sömu vikudaga og verði keyrður út þrisvar í viku. Bréfið var lagt fram og rætt.
Af hálfu Íslandspósts þykir rétt að lýsa yfir ánægju með þá staðfestingu, sem lesa má út úr samþykkt fundarins um mikilvægi póstþjónustu í sveitum, en hún er mjög í samræmi við afstöðu stjórnenda Íslandspósts. Ástæða þess að gripið hefur verið til breytinga á póstþjónustu í sveitum er sú, að bréfasendingum hefur fækkað verulega á síðustu árum. Það hefur leitt til þess að póstþjónustan hefur verið rekin með tapi. Við svo verður ekki búið til lengdar, þar sem Íslandspóstur er rekinn sem hlutafélag og byggir afkomu sína á sjálfsaflafé án utanaðkomandi fjárveitinga og styrkja. Af gefnu tilefni er ástæða til að árétta, að stjórnendum Íslandspósts er skylt að reka fyrirtækið með hagnaði, enda yrði það ekki burðugt til að standa undir þjónustu við viðskiptavini sína til langframa, ef fyrirtækið væri rekið með viðvarandi tapi.
Íslenska ríkið ber lögum samkvæmt ábyrgð á því að halda uppi tiltekinni póstþjónustu, svonefndri alþjónustu, sem nær til bréfa og pakkasendinga allt að 20 kg, og hefur samhliða því einkarétt á dreifingu áritaðra bréfa undir 50 g. Íslandspóstur hefur sinnt þeim rekstri samkvæmt rekstrarleyfi útgefnu af Póst- og fjarskiptastofnun. Undanfarin ár hafa stjórnendur fyrirtækisins ítrekað vakið athygli stjórnvalda á óviðunandi afkomu og fyrirsjáanlegum stigvaxandi vanda póstþjónustunnar, ef ekki yrði gripið til viðeigandi ráðstafana. Ástæðu slíkrar rekstrarafkomu má rekja til fækkunar bréfa innan einkaréttar á sama tíma og lögbundið dreifinet póstþjónustunnar hefur stækkað með tilheyrandi kostnaði. Þannig hefur magn einkaréttarbréfa dregist saman um 51% á síðustu tíu árum. Þrátt fyrir þann mikla samdrátt hefur lögbundin krafa um þjónustu haldist óbreytt og hefur kostnaður við þjónustuna aukist á sama tíma vegna stækkunar dreifikerfis með 16% fjölgun íbúða og atvinnuhúsnæðis.
Hagnaði af einkarétti hefur verið ætlað að standa undir kostnaði við alþjónustu að því marki, sem tekjur hennar hafa ekki hrokkið til. Síðastliðin ár hefur raunin verið sú, að þrátt fyrir verulega hækkun burðargjalda og umtalsverða hagræðingu í rekstri hafa tekjur af dreifingu bréfa í einkarétti vart staðið undir kostnaði við þá þjónustu. Því hefur töluvert vantað upp á fjármögnun alþjónustu á þeim hluta póstmarkaðarins, sem öllum er opinn en enginn utan Íslandspósts hefur sýnt áhuga á að sinna. Að mati Íslandspósts er kostnaðarbyrði alþjónustunnar um einn milljarður króna. Að því marki sem tekur af samkeppnisrekstri ná ekki að standa undir þeim kostnaði, þá er með taprekstri gengið á eigið fé fyrirtækisins, sem niðurgreiðir þjónustuna þannig í raun. Slíkt fyrirkomulag geta stjórnendur hlutafélaga ekki búið við, enda er það með öllu á svig við skyldur þeirra samkvæmt ákvæðum laga um hlutafélög.
Ástæða er til að fullvissa stjórn Landssambands kúabænda um það, að metnaður stjórnenda Íslandspósts stendur tvímælalaust til að þjónusta íbúa í sveitum landsins sem sem best verður á kosið. Að sama skapi er vonast til þess að á því sé fullur skilningur, að stjórnendur Íslandspósts geta ekki fremur en aðrir haldið uppi þjónustu, sem ekki stendur undir kostnaði og takmörkuð eftirspurn er eftir. Erlendis hafa stjórnvöld brugðist við breyttum rekstarskilyrðum póstþjónustunnar með sérstökum framlögum til þjónustuaðila í því skyni að halda uppi ástættanlegri þjónustu. Í samræmi við það sem að framan greinir er Íslandspósti ókleyft við óbreyttar aðstæður að sinna þeirri þjónustu, sem aðalfundur Landssambands kúabænda ályktar um, þar sem fjárhagslegar forsendur skortir til slíks rekstrar.
Virðingarfyllst,
Fh. Íslandspósts ohf.
Ingimundur Sigurpálsson,
forstjóri“.