Beint í efni

Svar frá Líflandi hf vegna áskorunar LK

17.08.2009

Eftirfarandi hefur borist frá Bergþóru Þorkelsdóttur, framkvæmdastjóra Líflands hf.:

 

„Fyrir það fyrsta viljum við leiðrétta það sem missagt er í yfirlýsingu/áskorun Landsambands kúabænda, þ.e. að Lífland hefur ekki boðað 4% hækkun á kúafóðri heldur allt að 4% hækkun á kjarnfóðri almennt.  Hækkunarþörfin er mun meiri í prótein- og fituríku kjarnfóðri.  Þetta á ekki við nema að litlu leyti um kúafóður.  Fyrirhuguð verðbreyting í kúafóðri er því ýmist engin, eða á bilinu 0,5 – 1,5%.

Okkur sem búum hér þessi misserin er ljóst hversu erfitt er að reka hér fyrirtæki við þær efnahagsaðstæður sem hér ríkja.  Af þessum sökum hefur Lífland eins og mörg önnur fyrirtæki reynt að stilla verðlagningu í hóf við þessi erfiðu skilyrði.  Af þeirri ástæðu var verðhækkun á vormánuðum einungis hluti af því sem þurft hefði, en vonast var til þess að gengi krónunnar jafnaði sig og hrávöruverð lækkuðu.  
Hrávöruverð eru nú lækkandi á kornhlutanum, þ.e. hveiti og byggi.  Mais hefur enn ekki lækkað í tilboðum til kaupenda í neinu samræmi við þær upplýsingar sem fást á netsíðum markaða.  Breytingar á mörkuðum, eins og þær sem nú sjást á maismarkaði, eru því miður oft tilkomnar vegna stöðutöku fjárfesta, sem flýja hrávörumarkað þegar verð taka að lækka.  Þess vega gefa markaðir oft vísbendingu um það sem er að gerast en endurspegla ekki þann raunveruleika sem blasir við hrávörukaupendum þá stundina. 
Eins verðum við að benda á að í ljósi legu landsins og þess að unnið er að því að tryggja aðfangakeðju með öryggisbirgðum, þá líður alltaf talsverður tími frá því að verð breytast erlendis og þar til þær breytingar sjást í innkaupsverðum hér.  Þetta gildir auðvitað í báðar áttir, þ.e. bæði til hækkunar og lækkunar.
Skoðun okkar er sú að verð á mais eigi eftir  að lækka þegar nær dregur uppskerutíma á mais í haust, svipað þeirri þróun sem raunverulega hefur orðið síðustu daga varðandi bygg og fóðurhveiti.   Prótein- og fituhluti hráefnanna hefur hins vegar ekki lækkað og er sá markaður mjög óstöðugur. Eins hafa vítamin og steinefni hækkað með genginu.  Þessu til viðbótar hefur allur rekstrarkostnaður Líflands hækkað, að undanskildum launagreiðslum. 
Af þessu leiðir að hækkunarþörf fyrirtækisins er orðin mikil, sér í lagi í prótein- og fituríku kjarnfóðri. Kúafóður fellur ekki nema að litlu leyti í þennan flokk;  þ.e. fóður fyrir kýr er að mestu byggt á gæðakolvetnum sem gera kúnni kleift að mynda sitt eigið prótein í vömbinni.  Þess vegna hefur aldrei staðið til að hækka kúafóður um 4%, heldur er þar ýmist horft á enga hækkun, eða varfærna 0,5-1,5% hækkun.
Það er von okkar hjá Líflandi að kúabændur skilji þörf okkar til þessara varfærnu breytinga.  Við viljum um leið minna á það að ekki hefur staðið á lækkunum hjá Líflandi þegar aðstæður og efni gefa tilefni til.  Í því sambandi bendum við á 3 verðlækkanir sem urðu hjá okkur síðastliðinn vetur.

 

Bergþóra Þorkelsdóttir, framkvæmdastjóri“

 

Athugasemdir Landssambands kúabænda: Vegna þessarar tilkynningar vill undirritaður taka fram að í áskorun til Líflands á föstudaginn kemur orðið kúafóður aldrei fyrir, aðeins er talað um kjarnfóður. Þá er LK mjög meðvitað um erfið rekstrarskilyrði fyrirtækja hér á landi um þessar mundir. Þau koma einnig við bændur sem ekki eiga mjög auðvelt með að velta auknum kostnaði út í verðlag framleiddra afurða.