Svæfandi áhrif mjólkur
28.06.2012
Afurðastöðin Synlait í Nýja-Sjálandi er sérhæfð mjólkurafurðastöð í heilsuvörum og framleiðslu á sérvörum. Nú borgar afurðastöðin bændum hærra verð fyrir mjólk sem kemur frá kúm sem eru mjólkaðar á nóttunni! Ástæðan er sú að þá inniheldur mjólkin hærra hlutfall vakans melatonin en það hormón hjálpar við svefn og því er næturmjólkin náttúrulegt svefnlyf. Kýrnar eru mjólkaðar klukkan þrjú að nóttunni og nú stendur til að gera rannsókn á raunverulegum áhrifum þessarar mjólkur á fólk sem á við alvarlegar svefntruflanir að etja.
Markhópur Synlait er eldra fólk, en einnig fólk sem þjáist af flugþreytu – nokkuð sem evrópskir ferðalangar sem fara til Nýja-Sjálands kannast vel við enda þarf að snúa sólarhringnum við. Synlait er einnig í sérvinnslu á broddmjólk og framleiðir broddmjólkurduft sem selt er í þeim tilgangi að styrkja mótefnastöðu fólks. Hægt er að fræðast nánar um þessa áhugaverðu afurðastöð á heimasíðu Synlait: www.synlait.com /SS.