Beint í efni

Sunnudagsfróðleikur: Fjölþætt hlutverk landbúnaðar?

03.04.2005

Vel á þriðja hundrað blesgæsir (Anser Albifrons) létu sjá sig á Hvanneyri í dag en blesgæsir eru fargestir hér og koma við á vorin og haustin á leið til og frá varpstöðvunum á Vestur-Grænlandi. Blesgæsin er nokkuð snemma á ferðinni, en svo er reyndar með flest alla farfugla í ár. Hvanneyri er verndað búsvæði blesgæsar og 

eru þær þar í þúsunda tali bæði vor og haust.

 

Eins og áður segir er blesgæsin fargestur, enda kemur hún hingað til lands eingöngu til að hvíla sig og safna kröftum fyrir áframhaldandi flug yfir Atlandshafið. Á sumrin er blesgæsin á Vestur-Grænlandi en hún hefur hinsvegar vetursetu á Írlandi og Skotlandi.

 

Þegar blesgæsin er hér á landi heldur hún sig eingöngu á láglendi og er hún mjög félagslynd og heldur sig því í stórum hópum. Á Hvanneyri eru blesgæsirnar einstaklega spakar, enda fær hún að vera í friði við sína iðju s.s. að plokka upp nýgræðinginn úr fallegum sléttum Landbúnaðarháskólans!

 

Hvanneyri halda blesgæsir sig fyrst og fremst á túnunum, en sjást einnig í úthaganum og á engjunum við Hvítá. Það má því segja að blesgæsirnar nýti nokkuð vel þau landsins gæði sem prýða Hvanneyri og voru einmitt í upphafi ástæða þess að á Hvanneyri var stofnaður Bændaskóli fyrir þarsíðustu aldamót.

 

Blesgæs er með bleikraut nef með hvíta blesu frá nefi og upp ennið, ungfuglinn er þó án blesunnar (fá hana við 6-8 mánaða aldur). Fæturnir eru rauðgulir en gæsin sjálf er grábrún og dekkst sk. grárra gæsa. Á kviðnum eru nokkuð áberandi dökkar þverrákir á eldri fuglunum, en þær fá gæsirnar við tveggja ára aldur. Á flugi eru framvængirnir áberandi dökkir.

Á Hvanneyri er gríðarlega fjölbreytt fuglalíf og vegna þess banns sem verið hefur gegn skotveiðum í áratugi, fjölgar fuglunum jafnt og þétt. Nýjustu þekktu landnemarnir á staðnum eru Brandendur, en Branduglur liggja jafnframt undir grun en varp hefur þó ekki verið staðfest enn.