Beint í efni

Sumarsýningarnar í mikilli sókn

24.06.2013

Í gær lauk hinni þekktu skosku landbúnaðarsýningu „Royal Highland Show“ en þessi sumarsýning er ein sú allra vinsælasta sem haldin er í Stóra-Bretlandi. Undanfarin ár hefur áhugi á sumarsýningum í Evrópu farið nokkuð vaxandi, en skýringin felst m.a. í því að þessar sýningar hafa ekki eingöngu höfðað til bænda og áhugafólks um landbúnað heldur einnig alls almennings.

 

Þannig hafa sýningarhaldarar oft sett upp svæði þar sem eru til sýnis ýmsar almennar vörur sem þó eiga tengingu til landbúnaðar með einum eða öðrum hætti s.s. vörur til heimavinnslu matvæla, hannyrðavörur og svo margskonar vörur sem tengjast frístundastarfi fólks.
 
Önnur leið sýningarhaldara er svo að vera með opnin sýningarsvæði þar sem hægt er að sjá tæki og tól við raunverulegar aðstæður. Líklega er hin sænska sýning Borgeby Fältdagar sú sýning sem er þar í mestum vexti, amk. ef horft er til Norðurlandanna.

 

Á sýningunni er hægt að sjá helstu jarðvinnslu- og heyskapartæki við vinnu og auk þess eru margskonar fyrirlestrar haldnir sem tengjast notkun tækjanna. Sýningin, sem verður haldin dagana 26.-27. júní, er nú haldin í 15. skipti og eru fleiri en 300 sýnendur með tæki og tól á henni. Síðasta ár komu 16.900 gestir og er búist við að í ár verði þeir um 20 þúsund/SS.