
Styrkja uppbyggingu á mjólkurframleiðslu í Túnis
13.10.2016
Danski þróunarsjóðurinn Danida stendur á bak við metnaðarfullt þróunarverkefni í Túnis en tilgangur þess er að stuðla að uppbyggingu aukinni mjólkurframleiðslu í landinu. Verkefnið gengur út á að efla innviði framleiðslunnar en hingað til hefur mjólkurframleiðslan verið afar frumstæð í landinu og byggt mikið til á handmjöltum og afhendingu á ókældri mjólk tvisvar á dag. Með þessu þróunarverkefni fá bændurnir danska ráðunauta í heimsókn sem aðstoða við að setja niður raunhæfa áætlun um uppbyggingu mjólkurframleiðslunnar á búinu, hvernig leysa megi kælingu mjólkur þar sem t.d. ekki er rafmagn til staðar og hvernig auka megi framleiðslu á búum sem hafa möguleika á því.
Í Túnis hefu hingað til verið greitt fyrir mjólkina sé hún „hvít og ekki vatnsblönduð“ þ.e. ekki gerðar neinar gæðakröfur aðrar en að mjólkin hefur verið sýrustigsmæld. Nú verða tekin mjólkursýni og þau rannsökuð með tilliti til fitu, próteins, líftölu og frumutölu en greiningarbúnaður og þjálfun starfsmanna hefur einnig verið hluti af þessu þróunarverkefni sem Danida kostar.
Hér sagði áður að um metnaðarfullt verkefni væri að ræða felst stærsti hluti þess í því að flytja til Túnis þekkingu á landbúnaði og kennslu í vinnubrögðum, þ.e. ekki að kaupa tæki og tól og gefa íbúunum, heldur að ráðleggja þeim þannig að þeir geti leyst hlutina heima fyrir. Það má því segja að stærsti hluti þess fjármagns sem notað er í þróunarverkefninu fari til greiðslu launa og ferðakostnaðar danskra ráðunauta en þess má geta að verkefnið er afar fjársterkt og hefur úr nærri hálfum milljarði íslenskra króna að moða/SS.