Beint í efni

Stýring mjólkurframleiðslunnar í Bandaríkjunum

09.02.2009

Eins og margir þekkja er ekkert kvótakerfi í mjólkurframleiðslunni í Bandaríkjunum. Það þýðir þó ekki, að ekkert sé gert til að hafa áhrif á framboð og eftirspurn mjólkurvara og þar með á mjólkurverð til bænda. Síðan í júlí 2003 hefur félagið Cooperatives working together (cwt) verið starfrækt , sem þýða mætti sem Samband bandarískra samvinnufélaga. Aðild að félaginu er frjáls, bændur gerast aðilar annað hvort í gegnum framleiðendasamvinnufélögin sem þeir tilheyra, eða með beinni aðild. Félagsmenn CWT framleiða um 70% af landsframleiðslu mjólkur þar vestra, um 55 milljarða lítra. Þeir greiða 10 sent pr. 100 pund mjólkur (hundredweight, skammstafað cwt) í félagsgjald. Það leiðir af eðli máls að allir bændur njóta ávinningsins, hvort sem þeir eru félagsmenn eða ekki. Hugmyndin að félaginu kom frá Landssambandi mjólkurframleiðenda, National Milk Producers Federation og hefur verið útfærð af því. Félaginu er því stjórnað af bændum sjálfum. Markmið félagsins er að mjólkurverð til bænda fari ekki niður fyrir 14 $/100 pund mjólkur, ca. 36 kr/ltr m.v. núverandi gengi.

Þess ber að geta að vestanhafs eru í gildi reglur að hálfu stjórnvalda um lágmarksverð mjólkur. Það er þó verulega mikið lægra en framangreind upphæð, 9 $/100 pund mjólkur.

 

Félagið ráðstafar fjármunum sem greiddir eru til þess með tvennum hætti:

  1. Herd retirement program. Keyptar eru upp hjarðir félagsmanna, sem þess óska og vilja hætta mjólkurframleiðslu, til slátrunar. Þannig er dregið úr framboðinu. Þetta prógramm hefur verið keyrt amk. fjórum sinnum síðan árið 2003 og hafa 200.000 kýr verið keyptar til slátrunar. Heildarfjöldi mjólkurkúa í USA er um 9 milljónir. Greiðslur til bænda taka mið að meðal markaðsverði kúa á búinu að frádregnu sláturverði, deilt með meðalafurðum. Dæmi: Markaðsvirði kúnna er 1.600 $ pr. stk. og frálagsverð 600 $, alls 1.000 $. Meðalnyt er 20.000 pund mjólkur, 200 cwt. Greiðslur nema því 5 $ /100 pund mjólkur. Hafi bóndinn framleitt 500.000 lítra á undanförnum 12 mánuðum nema heildargreiðslur til hans 6,4 milljónum króna. Að auki greiðir sláturhúsið frálagsvirði kúnna.
  2. Export assistance. Þar sem um samtök með frjálsa aðild er að ræða, geta þau varið fjármunum til að styðja félagsmenn í að keppa á heimsmarkaði. Frá 2003 hafa CWT greitt útflutningsbætur með um 50.000 tonnum af mjólkurafurðum, sem fluttar hafa verið úr landi.

Það er mat samtakanna að með starfi þeirra hafi heildar mjólkurverð til bænda verið 3 milljörðum dollara hærra en ella, það er um 5%. 

 

Kostir svona kerfis eru ýmsir. Fyrir það fyrsta er kostnaðurinn alveg fyrirsjáanlegur og fyrirfram ákveðinn, 10 sent/100 pund mjólkur. Það er um 0,7% af því mjólkurverði sem samtökin keppa að. Miðað við kostnaðinn við íslenska kvótakerfið verður það að teljast mjög hóflegt. Þá hamlar það ekki framtaki einstaklinganna en hefur samt áhrif á framleiðsluna. Engar vaxtaberandi skuldir verða til vegna þessa kerfis, sem í íslensku okurvaxtaumhverfi er líklega mesti kosturinn.

 

Þeirri hugmynd hefur verið hreyft, að greiða opinberan stuðning á alla framleidda lítra, líkt og tíðkast í garðyrkjunni hér á landi. Það myndi gera greiðslumarkið sem slíkt lítils virði, en hefði ekki stórkostleg áhrif á sjóðsstreymi framleiðenda. Skuldsetning vegna greiðslumarkskaupa myndi hins vegar minnka verulega, eða hverfa alveg. Að greiða út á alla framleidda lítra hefur í för með sér mikinn framleiðsluhvata. Af honum mætti halda aftur með því fyrirkomulagi sem hér hefur verið rakið.