Beint í efni

Stutt geldstaða minnkar nytina

03.03.2012

Kanadískir vísindamenn hafa komist að því all nákvæmlega hvað það kostar mikið að vera með of stutta geldstöðu. Rannóknin var gerð á Holstein Friesian kúm (svartskjöldóttum), en ástæðulaust er annað en að ætla að rannsóknaniðurstöðurnar megi heimfæra beint á íslenska kúastofninn þar sem um lífeðlisfræðilega þætti er að ræða.

 

Rannsóknin var gerð á kúm með annarsvegar stutta geldstöðu og hinsvegar langa geldstöðu. Niðurstöðurnar sýndu að kýr sem einungis frá þriggja til fjögurra vikna frí frá mjöltum mjólkuðu allt að 10% minna fyrstu 20 vikur mjaltaskeiðsins en kýrnar sem fengu fulla geldstöðu. Skýringin liggur í því að júgurvefurinn þarf ákveðinn tíma til þess að endurnýja sig eftir framleiðslutímabil og fjórar vikur er einfaldlega ekki nægur tími fyrir viðgerðir og endurnýjun á þessum mikilvæga framleiðsluvef kýrinnar. Athygli vekur að sé geldstöðutímabilið stutt að loknu fyrsta mjaltaskeiði, þá virðast kýr á öðru mjaltaskeiði hafa enn minni nyt en aðrar kýr.

 

Framangreindar niðurstöður birtust í tímaritinu Journal of Dairy Science. Tímaritið er tileinkað rannsóknum í nautgriparækt og er af mörgum talið eitt það allra besta í heiminum á þessu sviði. Ritið kemur út mánaðarlega og er með fjölmörgum faglegum greinum. Hægt er að lesa þúsundir áhugaverðra greina (á ensku) á vef tímaritsins, www.journalofdairyscience.org /SS.