Beint í efni

Stuðningur við lífræna aðlögun í landbúnaði

25.03.2011

Á liðnu sumri vann nefnd á vegum Jóns Bjarnasonar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að úttekt á stöðu lífræns landbúnaðar hér á landi. Á grundvelli niðurstaðna nefndarinnar hefur í vetur verið unnið að samningu verklagsreglna, samkvæmt samkomulagi á milli ráðuneytisins og Bændasamtaka Íslands, um aðlögunarstuðning til allt að fimm ára, samanber auglýsingu í 5. tbl. Bændablaðsins frá 24. mars, bls. 33.

Nýju reglurnar, sem eiga einkum fyrirmynd í norskum reglum, eru mun víðtækari en eldri viðmið samkvæmt búnaðarlagasamningum og miða við alhliða styrki á bæði land og búfé fyrir bændur sem gera samninga við vottunarstofu um aðlögun að lífrænum búskaparháttum frá og með 2011. Þar með hefur merkum áfanga verið náð þótt fjármunir séu af skornum skammti en með þessu framtaki er verið að stuðla að svipaðri þróun og orðið hefur í nágrannalöndunum. Hún hefur verið hægari hér, m.a. vegna skorts á aðlögunarstuðningi fyrstu árin en framangreind nefnd áætlaði að hlutdeild lífrænt vottaðra vara á markaði hér sé allt að 2%, þar af um helmingurinn innlend framleiðsla. Lífræni markaðurinn fer vaxandi, hér sem annars staðar, og neytendur kunna greinilega að meta hina ýmsu kosti þessara afurða. Til marks um þá þróun hér á landi eru nýstofnuð Samtök lífrænna neytenda (www.lifraen.is), samanber frétt í Bændablaðinu 10. mars, bls. 4. Til fróðleiks má geta þess að bændum í lífrænum búskap hér á landi gengur yfirleitt vel að selja afurðirnar og Bondebladed í Noregi greindi frá því 17. mars sl. að betri afkoma væri í lífrænni mjólkur- og kindakjötsframleiðslu en í þeirri hefðbundnu, samkvæmt niðurstöðum Nilf hagrannsóknarstofnunarinnar þar í landi. Hvað íslenskan landbúnað varðar hefur stefnuleysi tafið þróunina en nú hafa Þuríður Backman og fleiri alþingismenn lagt fram þingsályktunartillögu um mótun framleiðslustefnu í lífrænum landbúnaði, með ákveðnum markmiðum, líkt og gert hefur verið í Noregi og víðar. Þess má einnig geta að fyrir Alþingi liggur tillaga um bann gegn útiræktun erfðabreyttra lífvera sem getur skipt miklu máli fyrir þróun lífrænnar ræktunar, og reyndar einnig fyrir hreinleikaímynd íslensks landbúnaðar í heild. Þar sem aðstæður eru mjög breytilegar, og skilyrði misgóð til aðlögunar að lífrænni ræktun og búskap henni tengdri, koma almennar leiðbeiningar að litlu gagni. Umsóknarfrestur er því lengri en almennt gerist um styrki í landbúnaði eða til 1. júní n.k. þannig að hver og einn hafi góðan tíma til að kanna möguleikana. 

Undirritaður veitir nánari upplýsingar um nýju verklagsreglurnar:

Ólafur R. Dýrmundsson, landsráðunautur Bændasamtaka Íslands í lífrænum búskap, tölvupóstfang: ord@bondi.is, Símar 563-0300 og 563-0317.


Verklagsreglur Bændasamtaka Íslands um framlög úr ríkissjóði til stuðnings við lífræna aðlögun í landbúnaði

1) Markmiðið með aðlögunarstuðningi við lífræna búskaparhætti er að auka framleiðslu vottaðra lífrænna landbúnaðarafurða, stuðla að sjálfbærri þróun og efla byggð í sveitum.

2) Þeir framleiðendur sem hefja lífræna aðlögun, þ.e. upptöku lífrænna aðferða í landbúnaði, á árinu 2011 og síðar, eiga þess kost að sækja um framlög innan þess ramma sem fjárlög heimila ár hvert, til þeirra búgreina sem tilgreindar eru í 5. lið, einnar eða fleiri. Miða skal við að allar tilgreindar upphæðir í 5. lið séu hámarkstölur, hver upphæð að hámarki til fimm ára. Auglýsa skal eftir umsóknum eigi síðar en 1. apríl vegna framleiðslu á því ári.

3) Umsóknir teljast ekki fullgildar nema fyrir liggi greinargerð faggildrar vottunarstofu þar sem fram komi eftirfarandi upplýsingar:

a) staðfesting þess að umsækjandi hafi undirritað samning við vottunarstofu um reglubundið eftirlit með framleiðslunni samkvæmt reglum um lífræna framleiðslu, og hvenær síðasta úttekt samkvæmt honum fór fram,

b) staðfesting þess að umsækjandi hafi lagt fram og uppfært fullnægjandi áætlun um lífræna aðlögun viðkomandi búgreinar eða búgreina,

c) skrá um nytjalönd og stærð þeirra eftir nytjaflokkun, þar með gróðurhús, og upplýsingar um fjölda búfjár eftir tegundum, sem skráð er í lífrænni aðlögun og/eða vottun. Jafnframt skal fylgja staðfesting vottunarstofu á því að upplýsingar styðjist við gilda uppdrætti lands og samanburð við gögn Matvælastofnunar um áhöfn á býlinu.

Miða skal við bújörð, hluta bújarðar eða landspildu, þar með gróðurhús, sem viðkomandi nytjar til landbúnaðarframleiðslu. Búrekstrareiningin skal vera með sérstakt virðisaukaskattsnúmer og greiða búnaðargjald af framleiðslunni. Aðeins einn styrkur er greiddur til hvers aðila og aðila sem eru tengdir honum. Tengdir aðilar teljast aðilar, þar sem annar aðilinn, einstaklingur eða lögaðili, á beint eða óbeint meirihluta hlutafjár í hinum aðilanum eða fer með meirihluta atkvæðisréttar. BÍ er heimilt að krefja umsækjanda um sönnun þess að hann standi fyrir ræktun. Ágreining um framangreint skal leggja fyrir stjórn BÍ.

4) Umsækjandi skal sýna fram á að hann hafi sótt a.m.k. eins dags námskeið, eitt eða fleiri, í þeim búgreinum sem hann ætlar að laga að lífrænum búskaparháttum. Geti umsækjandi ekki uppfyllt þetta skilyrði við umsókn skal honum veitt undanþága til loka fyrsta aðlögunarárs. Miðað er við námskeið sem Bændasamtök Íslands, Landbúnaðarháskóli Íslands og viðurkennd vottunarstofa standa að, hver aðili fyrir sig eða sameiginlega.

5) Árleg framlög til framleiðenda skulu að hámarki vera sem hér segir:

a) Tún, engjar, akurlendi og garðlönd (hey, vothey, grænfóður, korn, kartöflur, grænmeti o.fl.)
- án jarðvinnslu: kr. 25.000/ha/ár
- með jarðvinnslu (tún, engjar): kr. 40.000/ha/ár
- með jarðvinnslu, þar með sáðskipti (akurlendi, garðlönd) kr. 60.000 ha/ár

b) Gróðurhús (grænmeti, ávextir, ber, jurtir, blóm)
kr. 500/m2/ár (hituð), kr. 50/m2/ár (óhituð)

c) Vetrarfóðraðar mjólkurkýr ásamt ásetningskvígum, kálfum og nautum (mjólk, kjöt, húðir)
kr 40.000/gripur/ár

d) Vetrarfóðraðar holdakýr ásamt ásetningskvígum og nautum (kjöt, húðir)
kr. 15.000/gripur/ár

e) Vetrarfóðraðar ær ásamt ásetningsgimbrum og hrútum (kjöt, mjólk ull, gærur)
kr. 4.000 /gripur/ár

f) Vetrarfóðraðar geitur ásamt ásetningshuðnum og höfrum (kjöt, mjólk, ull, stökur)
kr. 3.000/gripur/ár

g) Vetrarfóðraðar hryssur ásamt ásetningsmerfolöldum og stóðhestum (kjöt, mjólk, hár, húðir)
kr. 10.000/gripur/ár

h) Gyltur ásamt göltum og gyltugrísum til viðhalds stofninum (kjöt, hár)
kr. 6.000/gripir/ár

i) Hænur ásamt hönum og hænuungum til viðhalds stofninum (egg, kjöt)
kr. 1.000/fugl ár

j) Fyrirvari um hámarksframlög
Nægi árlegt framlag úr ríkissjóði ekki til úthlutunar, samkvæmt ofangreindum reglum, skulu greiðslur til einstakra framleiðenda skerðast hlutfallslega á þeim umsóknum sem eru umfram fjárhæð kr. 600.000. Verði heildarfjárhæð umsókna þá enn umfram þá fjárhæð sem er til ráðstöfunar, skerðast allar styrkveitingar jafnt.

6) Félagssvið Bændasamtaka Íslands annast alla umsýslu við aðlögunarstuðninginn, þar með kynningu og auglýsingar, móttöku og úrvinnslu umsókna og greiðslu framlaga, eftir að árleg greinargerð vottunarstofu liggur fyrir sbr. ákvæð 3. liðar. Greiðslur skulu inntar af hendi eftir lok hvers aðlögunarárs, þ.e.a.s. sú fyrsta eftir fyrsta árið. Skýrslu skal skila til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins fyrir 1. desember ár hvert um þau verkefni sem styrkt hafa verið.

7. Félagssvið Bændasamtaka Íslands skal kynna verklagsreglur þessar faggildum vottunarstofum sem skulu annast árlega vottun og úttekt, óháð þeirri ráðgjafarþjónustu sem bændasamtökin og búnaðarsamböndin veita.

8) Verklagsreglur þessar eru gerðar samkvæmt ákvæðum samninga á milli Bændasamtaka Íslands og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins um styrk til þróunar lífræns landbúnaðar á Íslandi, þeim fyrsta dags. 4. janúar 2011. Öll framlög samkvæmt samningi þessum eru bundin fyrirvara um heimildir á fjárlögum.