Beint í efni

Strikamerki skrattans?

14.06.2014

Jafn sjálfsagður hlutur og strikamerki á mjólkurvörum er ekki endilega sjálfsagður í öllum löndum, eða réttara sagt hjá öllum íbúum landa. Kaupendur mjólkurvara frá afurðastöðinni Russkoe Moloko í Rússlandi verða ekki varhluta af þessu enda eru allar mjólkurvörur fyrirtækisins með yfirstrikuðum strikamerkjum og hefur svo verið síðustu fimm ár. Blaðamenn vefsíðunnar Dairyreporter.com hafa ítrekað, undanfarin ár, leitað svara við því af hverju strikamerki á mjólkurvörunum eru yfirstrikuð en ekki fengið svör – fyrr en nú er tilkynning birtist á heimasíðu afurðastöðvarinnar.

 

Í stuttu máli segir þar að það sé vel þekkt staðreynd að strikamerki séu dulbúin skilaboð djöfulsins sjálfs og að þau innihaldi ósýnileg skilaboð sem samanstandi af þremur sexum (666), merki djöfulsins sjálfs. Af því að ekki sé hægt að selja vörur í stórverslunum án strikamerkja, þá neyðist afurðastöðin því til þess að setja rauðan kross yfir strikamerkið til þess að skemma þessi skelfilegu skilaboð skrattans enda sé afurðastöðin hliðholl Jesú.

 

Þessi afstaða afurðastöðvarinnar er svo nánar skýrð með því að finna megi hinar leyndu tölur með því að skoða strikamerkin en all auðvelt sé að sjá merki talnanna með hinum aðeins lengri strikum lengst til vinstri, í miðjunni og lengst til hægri á hverju strikamerki. Russkoe Moloko afurðastöðin beinir einnig þeim tilmælum til neytenda að best sé að henda umbúðunum strax í versluninni, en sé því ekki komandi við sé best að krota vel yfir strikamerkið með rauðum tússpenna/SS.