Beint í efni

Straumhvörf í ræktun nautgripa!

06.08.2010

 

 

 

 

 

 

 

 

9. heimsráðstefnunni um búfjárkynbætur var að ljúka í Leipzig í Þýskalandi. Óhætt er að segja að umfjöllun um úrval út frá erfðamengi (e. genomic selection), hér eftir nefnt GS, hafi yfirskyggt allt annað varðandi nautgriparæktina. Undanfarin tvö ár hafa gríðarlega umfangsmiklar rannsóknir farið fram á þessum aðferðum í flestum leiðandi nautgriparæktarlöndum heimsins; Bandaríkjunum, Kanada, Hollandi, Frakklandi, Skandinavíu, Ástralíu og Nýja-Sjálandi, auk fleiri landa. Jón Viðar Jónmundsson fjallaði um málið í grein í síðasta tölublaði Bændablaðsins á síðasta ári sem má finna hér og á Fræðaþingi 2010, sem er að finna hér. Talsverður fjöldi erinda fjallaði um hinn tæknilega hluta þessara

aðferða og þau fræði sem að baki þeim liggja. Í greinunum sem vísað er til hér að framan er gerð ágæt grein fyrir þeim hlutum.

 

Áhrif á framkvæmd nautgriparæktarstarfsins

 

Ljóst er að GS er að gjörbylta framkvæmd nautgriparæktarstarfsins í mörgum löndum heimsins. Almennt voru fyrirlesararnir sammála um að með þeim verði hægt að auka framfarir í ræktuninni um 50-100%, sem ekki er hægt að kalla neitt annað en meiri háttar byltingu. Eins og fram kemur í greinunum hér að framan er það mestanpart vegna styttra ættliðabils, en hægt verður að velja nautin um leið og í ljós kemur hvort þau gefa nothæft sæði, ca. ársgömul, í stað 5-7 ára áður. Einnig er hægt að velja nautsmæður strax sem kvígukálfa. Hvort tveggja byggir þetta á að mögulegt er að erfðaprófa gripina á fyrstu mánuðum ævinnar. Liggja niðurstöður þeirra prófa fyrir löngu áður en þeir verða kynþroska, þá þegar er hægt að ákvarða hvort þeir séu áhugaverðir sem foreldrar næstu kynslóðar. Einnig gefur þessi aðferð mjög aukna möguleika á að halda skyldleikarækt í skefjum.

 

Niðurlagsorð hollenskrar greinar um áhrifin á ræktunarskipulag og skyldleikarækt eru á þessa leið: „Úrval á grunni erfðamengis, samhliða styttra ættliðabili getur tvöfaldað erfðaframför, jafnhliða því sem skyldleikaræktaraukningu er haldið óbreyttri. Ungnautin munu hafa yfirburði yfir reyndu nautin og hægt verður að fækka stórlega þeim nautum sem sett eru í afkvæmaprófun“. Greinina í heild sinni má sjá hér.

 

Þessi aðferð hefur einnig gríðarleg áhrif á kostnað við ræktunarstarfið. Í fyrirlestri frá Nýja-Sjálandi kom fram að þar í landi hafa til þessa um 300 nautkálfar verið settir í afkvæmaprófun árlega. Kostnaður við afkvæmaprófun hvers og eins þeirra er um 3,1 milljón kr. (20.000 €). Með upptöku GS hefur verið ákveðið að fækka nautum sem fara í afkvæmaprófun niður í 160 og spara með því um 440 milljónir kr. árlega. Hluta af þeim fjármunum hyggjast þeir nota til að erfðaprófa fleiri gripi og þétta þar með gögnin sem að baki liggja, en hvert próf kostar 30-50 þús. kr.

 

Hagnýting hér á landi

 

Í erindi Bandaríkjamannsins Paul M. VanRaden kom fram að til þessa hafa um 12.000 afkvæmaprófuð naut verið erfðaprófuð í Bandaríkjunum og um 20.000 í Evrópu. Óþarft er að orðlengja hvers konar tölur þetta eru í íslensku samhengi. Um 5 þúsund erfðaprófaðar kýr eru í sk. viðmiðunarhópi vestanhafs en framlag þeirra til aukinna upplýsinga er miklu mun minna en hjá nautunum, enda mun minna öryggi á hefðbundnu kynbótamati þeirra en nautanna eins og alþekkt er. Í erindi hans kom fram að mun mikilvægara væri að fjölga prófuðum einstaklingum, heldur en t.a.m. að fjölga sem setum (SNP) sem greind væru. Prófin sem nú eru notuð greina um 50.000 set og virðist ekki mikið að sækja í auknu öryggi þeirra við að fjölga setum sem greind eru. Öryggi 50.000 seta prófs var skv. hans niðurstöðum 82,6% en öryggi 500.000 seta prófs 84%. Einnig gat hann þess að erfðamengi Holstein nautsins ToMar Blackstar hefði verið greint að fullu, alls 3 milljarðar DNA basapara. Af framansögðu má ráða að því fer fjarri að íslensk nautgriparækt, sem afkvæmaprófar 25-30 naut á ári geti notfært sér aðferðir sem gera kröfu um slíkan fjölda erfðaprófaðra einstaklinga. Erindi VanRaden er að finna hér.

 

Af inngangserindi Mike Goddard frá Ástralíu má einnig ráða að eftir því sem stofnar hafa verið lengur einangraðir og eru fjarskyldari helstu kúastofnum, þeim mun minni líkur eru á að prófin sem notuð eru, nái að fanga þann breytileika í arfgerð sem verið er að fiska eftir. Þó væri áhugavert að taka ákveðinn fjölda einstaklinga úr íslenska stofninum til prófunar og bera niðustöðurnar saman við þá viðmiðunarhópa sem myndaðir hafa verið í nágrannalöndunum. Með því mætti gera sér betur grein fyrir sérstöðu íslenska kynsins. Prófun á 150-200 gripum ætti að gefa ágæta mynd í þeim efnum, kostnaður við slíkt væri einnig innan skikkanlegra marka.

 

Til þessa hefur erfðaframför í íslenska kúastofninum verið að hámarki helmingur þess sem gerist í erlendum stofnum. Framfarir í þeim hafa því verið tvöfallt meiri en þeim íslenska. Gangi það eftir að hægt verði að tvöfalda ræktunarárangur í erlendum stofnum verður munurinn fjórfaldur frá því sem er í dag. Slíkir atburðir hljóta að vekja kúabændur til umhugsunar um framtíðarskipulag ræktunarmála hér á landi.