Beint í efni

Stórþjófnaður á nautgripum

04.01.2018

Kúabændur á Norður-Írlandi eiga ekki sjö dagana sæla og hafa raunar ekki átt síðustu þrjú árin. Skýringin felst í stórfelldum þjófnaði á nautgripum en talið er að 10 þúsund nautgripum hafi verið stolið í Norður-Írlandi síðustu þrjú árin. Þá er jafnframt talið að þessum gripum hafi verið smyglað til Írlands, slátrað þar í einhverjum af hinum mörgu litlu sláturhúsum sem þar finnast og þannig hafi nautgripunum verið komið í verð.

Þetta smygl á nautgripunum er í raun afar háþróað og er m.a. talið að þeir sem stunda þennan þjófnað hafi yfir að ráða eyrnamerkjum sem sett eru í hina stolnu gripi og þannig geti verið erfitt fyrir eftirlitsfólk að átta sig á því að um stolna gripi sé að ræða. Umfangsmesti þjófnaðurinn virðist eiga sér stað í héruðunum Newy og Armagh, en tveir af hverjum þremur horfnu nautgripum voru á búum í þessum tveimur héruðum.

Þess má geta að Norður-Írsku kúabændurnir eru nú að skoða leiðir til þess að merkja gripi sína með öðrum hætti og er þar m.a. horft til DNA erfðatækni/SS.