Beint í efni

Stórtækir rússneskir kjötsmyglarar!

01.07.2011

Yfirvöld í Rússlandi hafa nú komið upp um all óvenjulega glæpamafíu en glæpamennirnir versluðu með nautakjöt! Mat þarlendra er að glæpahringurinn hafi á síðustu fimm árum verið með veltu upp á rúmlega 40 milljarða íslenskra króna en kjötinu var smyglað til Rússlands frá Brasilíu, Argentínu og fleiri löndum. Þegar kjötinu hafði verið smyglað til landsins var það svo markvisst selt á milli lagerhúsa og umboðssöluaðila svo að þegar kjötið loks barst rússneskum neytendum var ómögulegt að rekja kjötið til uppruna síns.
 
Það voru tollayfirvöld sem komu upp um smyglhringinn þegar í ljós komu fölsuð upprunavottorð innflutts kjöts. Við húsleitir komu svo í ljós fjöldi falsaðra opinberra stimpla frá ýmsum löndum og ýmiskonar opinber skjöl, m.a. dýralæknavottorð um uppruna ofl. Nú þegar hafa nokkrir verið hnepptir í varðhald á meðan á rannsókn málsins stendur yfir/SS.