Beint í efni

Storfe 2013 í Osló 1. og 2. febrúar

03.09.2012

Dagana 1. og 2. febrúar n.k. verður ráðstefnan Storfe 2013 (Nautgripir 2013) haldin í Telenor Arena í Osló. Ráðstefnunni, sem í raun er sambland ráðstefnu, landbúnaðarsýningar og uppboðsmarkaðar, er beint að framleiðendum nautgripaafurða, bæði mjólk og kjöti. Haldin verða yfir 40 fræðsluerindi um margvísleg efni sem lúta að nautgriparæktinni. Ráðstefnunni er skipt upp í sjö deildir: Líffræði og tækni, bóndinn sem stjórnandi, heilbrigðismál, frjósemi og velferð, markaðsmál, nýjungar úr rannsóknum og gróffóður/beit. Aðstandendur ráðstefnunnar eru Nortura, TYR, Tine, Felleskjøpet Agri og Geno.

Samhliða ráðstefnunni verður einnig haldin landbúnaðarsýning, þar sem fóðurfyrirtæki, innréttinga- og vélasalar, sláturhús og kjötvinnslur, fjármálafyrirtæki og tryggingafélög, þjónustuaðilar og rannsóknastofnanir kynna vörur sínar og þjónustu.

 

Endapunktur Storfe 2013 verður síðan uppboð á kynbótagripum, frá kl. 12-16 á laugardeginum 2. febrúar. Þar er gert ráð fyrir að bjóða upp um 75 kynbótakvígur af bæði holda- og mjólkurkúakynjum.

 

Storfe 2013 er tvímælalaust áhugaverður kostur fyrir fróðleiksfúsa kúabændur og áhugamenn um það sem efst er á baugi í nágrannalöndunum, á sviði nautgriparæktarinnar./BHB

 

Dagskrá Storfe 2013

Skráning á Storfe 2013