Beint í efni

Stóraukin aðsókn í bæði búfræði og búvísindanám

06.08.2011

Aðsókn í búfræðinám og raunar einnig búvísindanám Landbúnaðarháskóla Íslands hefur stóraukist undanfarin ár, sér í lagi síðustu 2 árin. Þessi þróun er mjög í takt við sömu þróun í Danmörku þaðan sem fregnir berast af stórauknum áhuga á búfræðinámi. Sömu sögu er þó ekki að segja um Svíþjóð, þar sem aðsókn að búfræðinámi er undir væntingum. Skýringuna á þessari þróun telur Jón Gíslason, brautarstjóri búfræðibrautar Landbúnaðarháskólans, felast í breyttum aðstæðum í kjölfar efnahagsástandsins: „Ég held að þessa þróun megi skýra með tvennskonar hætti. Annars vegar er það gömul reynsla að þegar kreppir að á vinnumarkaði eykst aðsókn í framhaldsskóla. Hins vegar trúi ég að eftir hremmingar þjóðarinnar í og eftir bankahrunið hafi margir öðlast meiri trú á mikilvægi landbúnaðarins og það skili  sér í aukinni aðsókn“, sagði Jón í viðtali við naut.is

 

Aðspurður um það hverjir sæktu aðallega um nám í búfræði sagði Jón að yfirgnæfandi meirihluti þeirra væri fólk úr sveit eða með mikla tengingu við sveit. Þá væri vaxandi hlutfall þeirra sem lokið hefur öðru framhaldsskólanámi, annaðhvort með stúdentsprófi eða einhverri iðnmenntun og bætti svo við: „Þegar valið er inn í námið er einkum farið eftir undirbúningsmenntun, að því þó tilskyldu að viðkomandi hafi verulega reynslu af bústörfum, auk þess sem nokkuð er litið til aldurs nemenda. Því ættu þeir sem hyggja á búfræðinám í framtíðinni að hafa í huga að undirbúningsmenntun skiptir máli bæði til að komast inn í námið og til þess ráða vel við það. Sér í lagi legg ég áherslu á að nemendur hafi einhvern undirbúning úr framhaldsskóla í náttúrufræði, stærðfræði og efnafræði. Auk þess er nokkur tölvureynsla nauðsynleg“.

 

En hversu margir hefja nám nú í haust? „Í vor sóttu 65 um búfræðinámið en Landbúnaðarháskólinn hefur ekki treyst sér til að taka inn fleiri en 34 nemendur á ári í búfræði, en það er hámark þess sem hægt er að hafa í einum bekk. Að bæta við öðrum bekk myndi kalla á talsvert aukin útgjöld sem tæpast yrði brugðist við í fjárveitingum til skólans. Þá myndi það útheimta fleiri stöður kennara sem ekki er víst að auðvelt sé að manna“, sagði Jón að lokum í viðtali við naut.is/SS.