Stór samruni afurðafélaga í Þýskalandi
19.04.2016
Þýsku afurðafélögin DMK (Deutsches Milchkontor GmbH) og DOC Kaas hafa fengið heimild samkeppnisyfirvalda í Þýskalandi til þess að sameinast. Um risasamruna afurðafélaga er að ræða en DMK innvigtar árlega 6,8 milljarða kílóa mjólkur og DOC Kaas um 1 milljarð kílóa. Sameiginlega hafa félögin tvö mjög sterka stöðu á hinum þýska markaði og eru með afar fjölbreytt úrval mjólkurvara, sér í lagi á sviði ostaframleiðslu en DOC Kaas var nánast eingöngu í ostavinnslu.
Samtals standa að hinu nýja félagi 10.100 kúabú og verður félagið það stærsta í Þýskalandi. Haft hefur verið eftir forstjóra DMK, dr. Josef Schwaiger, að sameiningin hafi verið nauðsynlegt skref til þess að styrkja þýska mjólkurframleiðslu og efla enn frekar sterka markaðsstöðu evrópskra afurðastöðva á heimsmarkaðinum/SS.