Beint í efni

Stök DNA merki í nautgripi eru komin í sölu!

30.05.2022

DNA sýnatakan úr kvígum er nú komin á fullt og vonumst við til þess að allir sem ekki hafa pantað DNA merki nú þegar geri það sem allra fyrst þar sem afhendingartími á merkjunum er langur. Líkt og áður hefur komið fram er sýnatakan einn mikilvægasti hlekkurinn í framkvæmd erfðamengisúrvals en með arfgerðagreiningu gripa fást sem bestar upplýsingar um íslenska kúastofninn. Allar frekari upplýsingar um verkefnið má lesa hér.

Ákveðið hefur verið að setja í sölu stök DNA merki, sem nota má til að taka DNA sýni úr eldri kvígum sem hafa nú þegar verið merktar. Um er að ræða endurpöntun á merkjum sem áður hafa verið pöntuð. Þessi endurpöntun er frábrugðin venjulegum endurpöntunum að því leiti að merkið kemur með DNA sýnatökuglasi.

Bændur sem vilja nýta sér þann valkost að taka DNA sýni úr grip sem er nú þegar merktur geta þá valið um að hafa alls þrjú merki (6 plötur) í eyrum kálfsins eða fjarlægja eitt eldra merki (venjulegt) og setja DNA merki í staðinn. Sérstaklega er þó bent á að ef fjarlægja á eldra merki, má EKKI setja DNA merkið í sama gat þar sem þá á engin sýnataka sér stað. Til að DNA sýnatakan fari fram þarf að gera nýtt gat í eyra gripsins.

Enginn greiningarkostnaður verður á sýnum sem tekin eru úr kvígum fæddum frá og með 1. janúar 2022. Vilji bændur DNA greina eldri kvígur en þær sem fæddar eru 1. janúar 2022 og/eða nautkálfa má nota DNA merkin til þess en bændur þurfa að greiða fyrir þá greiningu. RML mun birta verðskrá fyrir arfgerðargreiningu nauta og eldri kvígna á heimasíðu sinni.

Leiðbeiningar um hvernig skal endurpanta einungis DNA merki má finna hér að neðan.
Athygli er vakin á því að nauðsynlegt er að panta stöku DNA merkin frá sama framleiðenda og töngin sem bóndinn á er frá. 

 

Merkin frá Agro-Tag

Fyrirtækið Agro-Tag býður upp á að endurpanta Multi Flex – D+Ddna (2 plötur) merkin beint.

  1. Þá er eftirfarandi merki valið og sett í körfu:

Sérstök athygli er vakin á því að í lýsingunni á merkinu kemur fram „Bara fyrir endurpöntun“.

  1. Næst skal haka í valmöguleikann „Endurpanta merki“ eða „Endurpanta merki í aðkeypta gripi“ og skrá inn númerið á gripnum sem þú ert að panta DNA merkið í.

Að lokum skal gengið frá pöntun.

Merkin frá Bjargi

Ef endurpanta á DNA merki (2 plötur) skal fylgja eftirfarandi skrefum:

  1. Velja TST-merki (4 plötur) og setja það í körfu.

2. Næst skal haka í valmöguleikann „Endurpanta merki“ eða „Endurpanta merki í aðkeypta gripi“ og skrá inn númerið á gripnum sem þú ert að panta DNA merkið í.

3. Velja staðfesta.

4. Í lokaskrefinu kemur upp valmöguleiki að skrá inn athugasemd.
Þar skal rita: „Einungis er óskað eftir DNA sýnatökumerki (2 plötur)“.
Sé það ekki gert fær viðkomandi 1 DNA merki og 1 venjulegt merki (alls 4 plötur).

5. Samkvæmt upplýsingum frá Bjargi, verður verðið leiðrétt og einungis rukkað fyrir DNA merkið (2 plöntur) en ekki heildarverð (4 plötur) ef bara DNA merki er pantað.