
Stofnandi Skype í tilraunastofuframleiðslu á kjöti
03.11.2017
Svíinn Niklas Zennström, sem þekktastur er fyrir að vera stofnandi Skype samskiptaforritsins, er í dag stjórnarformaður fjárfestingafyrirtækisins Atomico sem hefur að undanförnu sett mikinn kraft í fjárfestingu í tilraunaframleiðslu á kjöti í rannsóknastofu í Bandaríkjunum. Það er bandaríska fyrirtækið Memphis Meat sem Atomico hefur fjárfest í fyrir 1,8 milljarða króna en því fyrirtæki hefur tekist að framleiða kjöt með áferð og bragð kjöts frá búfé.
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem við greinum frá áformum um tilraunastofuframleiðslu á kjöti og ef marka má erlenda fréttamiðla sem fjalla um málefni kjötframleiðslu þá virðist vera vaxandi áhugi á svona framleiðslu og það víða um heim. Hvort eða hvenær það tekst að hefja raunverulega framleiðslu í einhverju magni skal ósagt látið um en þó má hverjum vera ljóst að miðað við áhugann á viðfangsefninu þá eru líkurnar meiri en minni á að það muni takast að hefja magnframleiðslu á komandi árum/SS.