Stofna ”Bjargráðasjóð” í Chíle
30.07.2012
Landbúnaðarráðuneytið í Chíle hefur nú komið á fót styrktarsjóði sem svipar um margt til hins íslenska Bjargráðasjóðs. Um mikið framfararskref er að ræða fyrir nautgripabændur landsins, enda landið ekki beint þekkt fyrir stuðning við landbúnaðarframleiðslu.
Það sem rak stjórnvöld til þess að stofna sjóðinn var m.a. tíður þjófnaður á nautgripumen slíkur þjófnaður er afar algengur í þessu hrjáða landi, sér í lagi í Los Lagos héraðinu. Þá búa þarlendir við að mörgu leiti áþekkar aðstæður og hér á landi þekkjast s.s. eldgos og mun sjóðurinn beita sér fyrir því að bæta bændum tjón af völdum öskufalls svo dæmi sé tekið. Sjóðurinn mun jafnframt bæta tjón af völdum þurrka, snjóa, bráðadauðfalla og slysa.
Luis Mayol, landbúnaðarráðherra landsins vonast til þess að með tilkomu sjóðsins muni nautgripabændur verða viljugari til þess að taka stórstígari skrefum fram á við og efla framleiðslu nautgripaafurða/SS.