Beint í efni

Stjórnvöld í Úkraínu ýta undir uppbyggingu kúabúa

16.02.2018

Ríkisstjórn Úkraínu hefur nú lagt fram áætlun sem miðar að því að byggja upp mjólkurframleiðslu landsins og mun í ár setja alls 9,4 milljarða íslenskra króna í sérstakan framkvæmdasjóð sem ætlað er að lána kúabændum sem vilja byggja upp framleiðslu sína. Lánin eru veitt með þriggja prósenta vöxtum til fimm ára, en bændurnir geta einnig valið að fá 30% framkvæmdastyrki í stað lánanna ef þeir geta sjálfir fjármagnað hinn hluta framkvæmdanna.

Búist er við því að þetta átak muni blása mikilli bjartsýni í bringu úkraínskra kúabænda og að umtalsverðum framkvæmdum verði hleypt af stokkunum. Það var sjálfur forsætisráðherra landsins, Volodymyr Groysman, sem tilkynnti um áætlun stjórnvalda. Til viðbótar átakinu munu stjórnvöld koma upp stuðningskerfi við mjólkurframleiðslu landsins þar sem kúabændur landsins reki bú sín með tapi í dag. Þá tilkynnti hann einnig um áætlun stjórnvalda um stuðning við aðrar greinar landbúnaðarsins sem og þá ætla stjórnvöld að niðurgreiða kaup bænda í landinu á vélum og tækjum einnig, sem og að veita fjárfestingalán til véla og tækjakaupa/SS.