Beint í efni

Stjórnsýslukæra vegna höfnunar á undanþágubeiðni vegna eyrnamerkinga – Úrskurður MAR

27.12.2022

Hinn 16. desember s.l. úrskurðaði Matvælaráðuneytið í máli er varðaði stjórnsýslukæru vegna höfnunar MAST á undanþágubeiðni vegna eyrnamerkinga nautgrips.

Málsatvik eru í stuttu máli þau að fyrr á þessu ári barst kæranda (bónda) bréf frá sláturhússtjóra þess efnis að nautgrip, sem kærandi hafði sent til slátrunar yrði fargað vegna ófullnægjandi merkinga en fyrir lágu upplýsingar um forprentað bæjarnúmer ásamt skýrt merktu gripanúmeri ásamt móðerni, faðerni og fæðingardegi sem stemmdi við hjarðbók. Óskaði kærandi í framhaldinu eftir undanþágu skv. 3. mgr. 15. gr. reglugerðar nr. 916/2012 um merkingar búfjár um að gripnum yrði ekki fargað heldur yrði hann nýttur til manneldis. Hafnaði héraðsdýralæknir þeirri undanþágubeiðni þar sem ekki þótti sýnt fram á nauðsyn þess að þessi gripur gæti ekki beðið slátrunar og var gripnum hent. Í framhaldinu kærði bóndinn niðurstöðuna til Matvælaráðuneytisins.

Nú hefur ráðuneytið úrskurðað um ákvörðunina. Í úrskurðinum kemur fram að ráðuneytið geti ekki tekið undir það sjónarmið Matvælastofnunar að hafna beri undanþágubeiðni kæranda. Verklag stofnunarinnar í málinu hafi gengið lengra en ákvæði reglugerðarinnar og feli í sér íþyngjandi kröfur sem hafi ekki stoð í henni og gangi jafn vel í berhögg við skýrt orðalag reglugerðarinnar. Markmiðum reglugerðarinnar megi þannig ná með minna íþyngjandi hætti en lýst er í kæru. Þannig hafi stofnunin brotið gegn ákvæðum 12. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, um meðalhóf með hinni kærðu ákvörðun.

Jafnframt kemur fram að ráðuneytið telur einnig að Matvælastofnun hafi brotið gegn leiðbeiningaskyldu sinni skv. 7. gr. stjórnsýslulaga þegar að stofnunin tilkynnti einungis slátursleyfishöfum um breytt verklag en ekki bændum sem þangað leiti þjónustu, enda sé um að ræða verklag sem hafi bein og íþyngjandi áhrif á þá. Ráðuneytið ógilti því ákvörðun Matvælastofnunar en tók ekki afstöðu til kröfu kæranda um bætur en beindi því til kæranda að slíkar kröfu þyrfti að bera upp við Ríkislögmann.

Úrskurðinn í heild sinni má lesa hér.