Beint í efni

Stjórnarfundir – 10. 2009/2010

15.01.2010

Stjórnarfundur í Landssambandi kúabænda 15. janúar 2010. Haldinn á skrifstofu framkvæmdastjóra að Bitruhálsi 1.

Mættir eru Sigurður Loftsson, formaður, Sigurgeir Hreinsson, Guðný Helga Björnsdóttir, Sveinbjörn Þór Sigurðsson og Jóhann Nikulásson. Fundur settur kl. 11.

 

1. Fundargerð síðasta fundar. Afgreidd með minni háttar breytingum. Þess getið varðandi 4. lið að fundargerðin var ekki birt fyrr en eftir að sýnataka fór fram.

2. Framleiðsla, sala og afkomumál. Sala á próteingrunni tæpar 117,7 milljónir lítra sem er aukning um 0,5%. Sala á fitugrunni 115,6 milljónir lítra, aukning um 3%  Ágæt sala í sjálfu sér, en þegar sala er stillt inn á afkomu er útkoman ekki eins góð, framlegðarháar vörur hafa gefið eftir. Á móti kemur að leiðrétting framlegðarskekkju drykkjarmjólkur er farin að skila sér í rekstri mjólkuriðnaðarins. Á síðasta fundi Verðlagsnefndar búvöru var verðlagsgrundvöllur 1. desember sl. staðfestur. Óskað eftir sundurliðun á vaxtakostnaði bænda. Sú sundurliðun sem kom frá Hagþjónustu Landbúnaðarins er að því leyti gölluð að inni í vaxtaliðnum þar, er ennþá talsvert af gengistapi. Ákveðið að leita til Einars Hafliða Einarssonar, endurskoðanda til að ná fram betri sundurliðun. M.v. áramót 2008/9 voru erlend lán bænda um 40% af heildar fjármögnun búanna. Geymda vaxtahækkunin er ennþá geymd, verður að fá hana inn. Ekki verið rætt um leiðréttingar á verði, ljóst að þungt verður fyrir fæti með að sækja þær. Rétt að bíða eftir því hvert áburðarverðið verður á komandi vori, áður en lengra er haldið í þeim efnum. Einnig ljóst að stjórn verður að leggja á það sjálfstætt mat hvað markaðurinn þolir í þessum efnum. Tíðkast í viðskiptalífinu að bjóða í eigin kröfur, t.d. að kaupa 100 milljóna kröfu á 50 milljónir. Mikilvægt að halda áfram að leiðrétta framlegðarskekkjuna, hefur orðið til á löngum tíma og verður því aðeins leiðrétt á löngum tíma. Framleiðsla á nautakjöti árið 2009 var 3.761 tonn, aukning um 4,3%. Salan var 3.753 tonn, aukning um 3,9%. Nautakjötið var eina kjöttegundin sem sýndi söluaukningu á liðnu ári. Ákveðið að taka saman framleiðslukostnað á nautakjöti, amk. breytilega hlutann. Ársreikningar fóðurfyrirtækjanna. Hver er staða fyrirtækjanna í fyrirsjáanlegri framtíð til bjóða fóður á hagstæðu verði? Verða þau í stakk búinn til að bjóða betra verð eftir endurskipulagningu fjármála? Skilar endurskipulagningin sér til eigendanna, bænda í þessu tilfelli? Miðað við þær forsendur sem virðast vera lagðar til grundvallar endurskipulagningar fjármála fóðurfyrirtækja, er engin von til þess að fóður fáist á hagstæðara verði. Ákveðið að birta greinargerðina á heimasíðu LK.

3. Tillögur að samþykktabreytingum. Starfshópur hefur skilað af sér tillögum til breytinga á samþykktum LK. Talsverð breyting á 3. grein samþykkta varðandi aðildarfélögin, þau þurfa að gera ákveðnar breytingar vegna þessa, t.d. varðandi stærð, starfssvæði og sjálfstæði. Breyting á skilgreiningu nautgripabónda. Í tillögum er gert ráð fyrir að virka innleggjendur á mjólk og nautgripakjöti í afurðastöð. Talsverðar umræður um að framleiðsluleyfi verði að liggja fyrir hjá öllum framleiðendum. Skorað á MAST að bæta úr þessu hið allra fyrsta. Framkvæmdastjóri sendi bréf þess efnis til stofnunarinnar. Nokkrar umræður um ákvæði um frágang fundargerða. Í tillögunum er gert ráð fyrir að fundargerðir séu staðfestar í lok fundar og birtar innan 7 daga. Vegna breytinga á 9. greininni, þá verður að gefa fundarritara, sem jafnframt er þátttakandi í umræðum á stjórnarfundum, eðlilegt svigrúm til að ganga frá fundargerð. Ef sá kostur er valinn, að birta fundargerðir innan 7 daga, er sú hætta fyrir hendi að fundargerðin verði lítið annað en útdráttur, þar sem staða mála getur verið með þeim hætti að ekki sé hægt að skýra frá þeim opinberlega. Stjórn gerir tillögu að breytingu á þá leið, að fundargerðir verði birtar á vef LK svo fljótt sem verða má og eigi síðar en eftir næsta fund stjórnar. Þannig er hægt að hafa fundargerðir ýtarlegri og vandaðri. Varðandi lágmarks félagafjölda er stjórn þeirrar skoðunar að lágmarksfjöldi í aðildarfélagi eigi að vera 10 félagsmenn. Formanni og framkvæmdastjóra falið að finna þann fjölda félagsmanna að baki hverjum aðildarfulltrúa, sem verði í sem bestu samræmi við þann fjölda sem nú er. Ólafur Björnsson, hrl. á Selfossi hefur skoðað tillögurnar, án athugasemda.
4. Framvinda mála síðasta aðalfundi. Farið yfir lista ályktana aðalfundar 2009 og staða þeirra metin. Ákveðið að vinna að átaki í brunavörnum og vinna að framgangi þess. Kanna ódýrari lausnir á hauggeymslum og metangasvinnslu. Skilaréttur á matvælum, er hægt að gera meira þar? Var sent til viðskiptaráðherra. Verðlagsnefnd hefur staðfest nýjar flokkunarreglur á mjólk og taka gildi 1. febrúar, verðfelling vegna ffs. 1. janúar 2011. Staða þjónustumála hefur áhrif á framgang þess. Ræða við þjónustuaðila á mjaltakerfum í framhaldi af þessu. Búið að frysta endurskoðun á búnaðargjaldi, engu að síður verða fluttar tillögur þess efnis á næsta Búnaðarþingi frá sunnlenskum búnaðarþingsfulltrúum. Senda erindi til Auðhumlu varðandi ákvarðanir um útflutning. Forgangur greiðslumarksmjólkur að innanlandsmarkaði. Framkvæmdastjóri lagði fram drög að minnisblaði þess efnis. Stjórn samþykkir eftirfarandi bókun:

 

Landssamband kúabænda fagnar því að fram sé komið frumvarp til breytinga á búvörulögum, sem taka af tvímæli um forgang greiðslumarksmjólkur að innanlandsmarkaði. Afar mikilvægt er að eytt verði óvissu varðandi þau réttindi og skyldur, er fylgja greiðslumarki til mjólkurframleiðslu. Jafnframt er mikilvægt að koma í löggjöf ákvæðum varðandi heimavinnslu mjólkur. Landssamband kúabænda tekur undir þau sjónarmið, að heimavinnsla mjólkurafurða auki fjölbreytni á markaði, sé jákvæður valkostur fyrir neytendur og geti skapað sóknarfæri fyrir mjólkurframleiðendur. 
Landssambandið er jafnframt þeirrar skoðunar að sú ívilnun sem gert er ráð fyrir að veita heimavinnsluaðilum í frumvarpinu, sé veruleg og með henni komið mjög til móts við þá sem hana vilja stunda. Ekki er mögulegt að ganga lengra í þeim efnum, án þess að ganga á gerða samninga um starfsskilyrði mjólkurframleiðslunnar, sem nú þegar hefur verið raskað verulega. Að mati Landssambandsins er forsenda þessarar ívilnunar sú, að umrædd mjólk sé framleidd, unnin og afurðirnar seldar beint frá býli til neytenda af sama rekstaraðila.
Í þessu sambandi má nefna, að ívilnun sú sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu jafngildir um 5% af mjólkurmarkaðnum, sem gera má ráð fyrir að sé ríflega sú stækkun markaðar sem valkostir á borð við heimavinnslu kunna að leiða af sér. Jafnframt má benda á, að m.v. núverandi verð á greiðslumarki, ígildir þessi ívilnun fjárstuðningi upp á tæpar 3 milljónir króna, sem er umtalsverður nýsköpunarstyrkur.
Varðandi framkvæmd laganna, þá er það grundvallaratriði af hálfu Landssambands kúabænda, að heimavinnsluaðilum verði gert skylt að halda utanum og skila skýrslum um framleiðslu sína, líkt og öðrum afurðastöðvum í mjólkuriðnaði er skylt að gera.
Landssamband kúabænda óskar eftir því að frumvarpið fái vandaða þinglega meðferð og verði að lögum hið fyrsta.

 

5. Skýrsluhaldskerfið Huppa. Fagráð hefur lagt 10 milljónir kr. af þróunarfé til verkefnisins, engar aðrar umsóknir borist. Tryggingamál bænda, formaður og framkvæmdastjóri ræði áfram við Sjóvá. Greiðslur fyrir skil á bókhaldsgögnum í gagnagrunn BÍ. Sæðingakostnaður, verði rætt á fundi 28. janúar n.k.

6. Búnaðarþing 2010. Tímasetning Búnaðarþings og skipulag þess, leggja fram tillögu þess efnis á þingið. Framleiðsluleyfi nautakjötsframleiðenda, þrýsta á MAST um að koma þeim málum í eðlilegt horf. Ályktun frá kúabændum í Austur-Húnavatnssýslu gegn sameiningu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis og iðnaðarráðuneytis í atvinnuvegaráðuneyti. Verður borin fram á aðalfundi. Möguleikar á hagnýtingu nýjustu tækni í kynbótum nautgripa – genomisk selektion, úrval á grunni erfðaprófa. Verður tekið upp á vettvangi Fagráðs. Kosningar á Búnaðarþingi. Fyrirséð að nokkrir hætta í stjórn BÍ. Sunnlenskir búnaðarþingsfulltrúar skora á Sigurgeir Hreinsson að gefa kost á sér til stjórnarsetu í BÍ.

7. Rekstur LK 2009. Framkvæmdastjóri fór lauslega yfir rekstur landssambandsins 2009. Afkoma í jafnvægi.

8. Mál fyrir aðalfund 2010. Fyrirkomulag beingreiðslna. Kvótamarkaður. Stefnumörkunarhópur. Genomisk selektion.

9. Önnur mál:
a. Skipan árshátíðarnefndar. Nautgriparæktarfélag Austur-Skaft., Félag nautgripabænda á Héraði og Fjörðum og Nautgriparæktarfélag Vopnafjarðar tilnefna fulltrúa í árshátíðarnefnd.

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 17.00

 

Baldur Helgi Benjamínsson,
Framkvæmdastjóri LK.