Beint í efni

Stjórnarfundir – 9. 2009/2010

03.12.2009

Stjórnarfundur í Landssambandi kúabænda haldinn að Bitruhálsi 1, 3. desember 2009. Mætt eru Sigurður Loftsson, formaður, Sigurgeir Hreinsson, Guðný Helga Björnsdóttir, Jóhann Nikulásson og Sveinbjörn Þór Sigurðsson. Baldur Helgi Benjamínsson framkvæmdastjóri ritaði fundargerð.

Formaður setti fund kl. 11.00 og gekk til dagskrár.

1. Fundagerð síðasta fundar. Ekki hafa borist athugasemdir við athugasemdir við fundargerð síðasta fundar. Ákveðið að halda áfram því verklagi að afgreiða fundargerð síðasta fundar á næsta fundi á eftir. Fundargerð síðasta fundar verður birt á heimasíðu Landssambands kúabænda eftir fundinn.

2. Framleiðsla og sala. Innvigtun ívið minni undanfarnar vikur en á sama tíma og í fyrra. Framleiðsla og sala á nautakjöti í jafnvægi, afkoma dalar hratt. Framkvæmdastjóra falið að taka saman tölur um ásetning um miðjan desember, þá verða nóvemberskýrslur komnar inn. Mikil spenna á kjötmarkaði. Verið að selja lambalæri til Færeyja á 609 kr/kg. Nautakjöt heldur sjó, breyttur skurður í vinnslu, óverulegir biðlistar. Ágæt sala á mjólkurvörum í nóvember, ferskvaran í jafnvægi en birgðavaran með aukningu.

3. Verðlagsmál. Verðlagsgrundvöllur 1. september sl. sýndi hækkunarþörf upp á 4,5%,  lækkandi vextir í grundvellinum vega talsvert upp á móti öðrum kostnaðarhækkunum. Niðurstöður búreikninga 2008 voru birtar í nóvember, en þar koma fram skelfilegar niðurstöður varðandi fjármagnskostnað og heildarskuldir. Á haustfundum kom fram skýr krafa um eðlilegar leiðréttingar á mjólkurverði og verður henni haldið til haga. Talsverð umræða varð um markaðsstöðu mjólkurafurða og kostnað við mjólkurframleiðslu, en væntingar eru um talsverðar verðlækkanir á áburði. Afar mikilvægt er að haldið verði áfram að leiðrétta framlegðarskekkju milli einstakra vöruflokka mjólkuafurða. Verðlagsnefndarfundur hefur verið boðaður 7. desember n.k.

4. Gæðakönnun á nautahakki – erindi Neytendasamtakanna. Neytendasamtökin hafa sent erindi til LK varðandi gæðakönnun á nautahakki, í kjölfar umræðu um íblöndun í nautakjöt. Formaður hefur rætt við kollega sinn hjá NS, síðarnefndu samtökin fá öðru hvoru kvartanir um íblöndun í nautahakk. Íblöndun er leyfileg en þarf að koma fram á umbúðum. Afstaða LK er skýr, að það væri eftirlitsaðila að sjá til þess að vörurnar væru í lagi og litum við svo á, að þannig væru málin nema annað kæmi í ljós. Heilbrigðiseftirlit hefur einungis tekið gerlamælingar en hins vegar aldrei gert t.d. tegundagreiningu á hakki. Kostnaður vegna rannsóknarinnar hjá Matís er kr. 645.000 auk vsk. LK og NS greiða fyrir rannsóknina og birta niðurstöður samhliða. Einnig verði leitað stuðnings frá Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu. Stjórn veltir fyrir sér hvort rétt sé að hún komi að málum af þessu tagi. Stjórn fellst á aðkomu að verkefninu og felur formanni og framkvæmdastjóra að taka saman minnisblað um framkvæmd verkefnisins í heild. Umfang sýnatöku verði í samræmi við framboð á markaði.

5. Yfirlit yfir umræður á haustfundum 2009. Formaður reifaði samantekt yfir umræður á haustfundunum. Fundargestir 289 talsins, frá ca. 25-30% kúabúa. Gott yfirlit yfir sjónarmið greinarinnar. Á slíkt yfirlit erindi á heimasíðuna? Formaður skynjaði greinilega í þessari fyrstu hringferð, hversu gríðarlega misjöfn sjónarmið eru eftir svæðum. Hlutverk þessara funda er fyrst og fremst að heyra sjónarmið úr grasrótinni. Spurning um að hafa fundarritara í næstu haustfundaferð og setja inn fréttir af þeim jafnóðum á heimasíðuna.

6. Staða ESB mála. Formaður fór yfir skipun landbúnaðarhópsins vegna aðlögunarviðræðna við ESB og erindisbréf hans. Skipan hópsins er óneitanlega talsvert sérstök. Ábyrgð fulltrúa bænda í þessum hópi getur ekki verið önnur en að koma á framfæri grundvallarhagsmunum landbúnaðarins. Mikilvægt að BÍ haldi skipulega utan um þá baklandsvinnu sem unnin verður vegna þessa. Framkvæmdastjóri fór yfir fyrsta fund nefndarinnar sem haldinn var 1. desember sl. Boðaður hefur verið fundur með verkefnahópi LK og SAM, ásamt fulltrúum í landbúnaðarhópnum, forsvarsmönnum BÍ og fulltrúum sláturiðnaðarins 7. desember n.k.

7. Fyrirkomulag beingreiðslna og greiðslumarksviðskipta. Rætt um uppstokkun á fyrirkomulagi B- og C- greiðslna. Í stað núverandi fyrirkomulags verði teknar upp fastar mánaðargreiðslur og láta þær kalla eftir framleiðslunni. Taka þarf mið af sölu og því hvenær framleiðslan er ódýrust við þessa uppsetningu. Ákveðið að stilla upp dæmum og leggja tillögu fyrir aðalfund 2010. Rætt um fyrirkomulag greiðslumarksviðskipta og hvort gera eigi stefnubreytingu frá því sem verið hefur, að greiðslumarksviðskipti séu alfarið frjáls. Þess í stað verði tekinn upp kvótamarkaður, með svipuðu sniði og gerist í Danmörku. Ýmislegt sem knýr á um að slíkt verði skoðað af alvöru núna. Með þessum hætti má reikna með að áhrif kaupendinna aukist í  verðmynduninni en þessi markaður hefur hingað til verið að mestu seljendamarkaður. Stefnt á að undirbúa málið fyrir aðalfund.

8. Starfsmannamál. Framkvæmdastjóri er í landbúnaðarhópi ESB, af því mun hljótast aukavinna. Þá liggur fyrir að hann fari í fæðingarorlof á næstu mánuðum, á von á barni 1. júní n.k. Kannaðir hafa verið möguleikar á að ráða aðila í verktöku vegna ákveðinna verkefna og létta þannig undir með framkvæmdastjóranum. Annar möguleiki er að ráða starfskraft í hlutastarf, sá ókostur er við það að þá þarf að verkstýra þeim aðila. Skilaboð frá formannafundi er að draga ekki saman í starfi LK. Fjárhagsrammi er hinsvegar ákveðinn og hann þarf að virða. Stjórn finnst mun hugnanlegra að ráða einstakling á verktakagrunni fáist til þess góður aðili. Formanni og framkvæmdastjóra falið að vinna málið áfram.

9. Stefnumörkunarhópur LK. Formaður veltir fyrir sér hvernig best væri að standa að þeirri vinnu í framhaldinu. ESB vinnan er komin í fastan farveg og spurning hvernig núverandi Stefnumörkunarhópur nýtist í þeirri vinnu. Komi til þess að taka þurfi stórar ákvarðanir sem varðar framtíð greinarinnar gæti verið betra að kalla saman alla aðalfundarfulltrúa. Niðurstaða fulltrúafundar Auðhumlu í nóvember var eindregið sú að líklegast væri að á næstu árum þyrfti að bregðast við gríðarlegri hagræðingarkröfu og því væri hár framleiðslukostnaður stærsta viðfangsefnið. Danskir kollegar okkar hafa lagt fram metnaðarfulla stefnumörkun sem gott er að hafa til hliðsjónar. Núverandi stefnumörkunarhópur hefur unnið mjög gott starf við öflun upplýsinga og sjónarmiða, en spurning hvort ekki sé rétt að stokka hann upp á þessum tímapunkti. Settur verði saman minni hópur í samstarfi við Auðhumlu sem yrði látinn ljúka verkefninu eins fljótt og auðið er. Þetta gætu t.d. verið 6-7 frá LK og 3-4 frá Auðhumlu, auk starfsmanna. Hagsmunir bænda og iðnaðar eru mjög samtvinnaðir í þessu efni. Verðum að ganga út frá því að miklar hagræðingarkröfur verði gerðar á  næstu árum. Verði raunveruleikinn betri en svo, er það einungis jákvætt.

10. Kostnaður við sæðingar og kynbótastarf. Eftir formannafund á dögunum hafði varaformaður BÍ, Sveinn Ingvarsson, sambandi við formann LK varðandi niðurstöðu fundarins. Formaður LK lagði til að Sveinn kæmi til samstarfs við hóp LK sem hefur haft með málið að gera, ásamt Magnúsi B. Jónssyni, landsráðunaut BÍ í nautgriparækt. Stjórn samþykkir þessa tillögu.

11. Aðbúnaðarreglugerð. Snorri Sigurðsson er að vinna í endurskoðuninni. Honum verði falið að vinna málið til enda, nokkur atriði sem stjórn þarf að taka til skoðunar.

12. Búnaðarþing 2010. Allir stjórnarmenn LK sitja búnaðarþing. Óskað eftir málum fyrir þingið fyrir lok janúarmánaðar.

13. Önnur mál.
a. Sala á ógerilsneyddri mjólk.
Stjórn ákveður að aðhafast ekki frekar í málinu að sinni.
b. Búvörulög. Málið situr inni í Sjávarútvegs- og Landbúnaðarráðuneyti og óvíst enn um framgang þess. 
c. Heimavinnsla. Lítið að gerast í því máli enn sem komið er.
d. Umfjöllun Ólafs Björnssonar hrl. um skuldamál kúabænda. Á fundi félagsráðs FKS fór hann yfir réttarstöðu bænda í lánamálum. Núna tíðkast 30% lægra mat á jörðum en fyrir hrun. Tæki meira mat af því hvernig reksturinn væri.

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 15.30

 

Baldur Helgi Benjamínsson
Framkvæmdastjóri LK